Innlent

Minni skattafrádráttur mun draga úr lífeyrissparnaði

Þeim sem greiða í viðbótarlífeyrissparnað fækkaði um sex þúsund á milli áranna 2010 og 2011.fréttablaðið/anton
Þeim sem greiða í viðbótarlífeyrissparnað fækkaði um sex þúsund á milli áranna 2010 og 2011.fréttablaðið/anton
Lífeyrissjóðir munu ráðleggja sjóðsfélögum að lækka viðbótarlífeyrissparnað sinn í tvö prósent af launum, nái breytingar sem lagðar eru til í fjárlagafrumvarpinu fram að ganga. Að öðrum kosti verði þeir fyrir tvísköttun, þar sem útgreiðslur úr sjóðunum eru einnig skattlagðar.

Skattafrádráttur vegna viðbótarlífeyrissparnaðar mun miða við tveggja prósenta framlag á árinu 2012 í stað fjögurra prósenta nú, samkvæmt fjárlagafrumvarpi fyrir árið 2012. Þetta mun afla 1,4 milljarða króna í viðbótartekjur.

Gunnar Baldvinsson, framkvæmdastjóri Almenna lífeyrissjóðsins, segir að þessi aðgerð sendi röng skilaboð. Sjóðurinn muni bregðast við með því að ráðleggja sjóðsfélögum að lækka fjögurra prósenta framlag í tvö prósent til að koma í veg fyrir tvísköttun. Trauðla muni sambærileg upphæð skila sér í þær sparnaðarleiðir og sparnaður almennings til lengri tíma því minnka.

„Við eigum ekki að minnka sparnað, það er einmitt það sem hefur vantað hjá okkur,“ segir Gunnar. Hann bendir á að lífeyrisárin séu að meðaltali fjórðungur af fullorðinsárum einstaklinga og mikill sparnaður hafi minnkað eftir hrun. „Getan til að greiða lífeyri hefur minnkað og það er á svona tímum sem á að hvetja til sparnaðar.“ Rúm fjörutíu prósent sjóðsfélaga greiða fjögur prósent í viðbótarlífeyrissparnað hjá Almenna.

Friðrik Már Baldursson, prófessor í hagfræði við HR, segir að fólk eigi tvímælalaust að lækka hlutfallið niður í tvö prósent og komast undan skattheimtu, nái lagabreytingin fram að ganga. Þetta muni því draga úr inngreiðslum í lífeyrissjóði en auka ráðstöfunartekjur fólks að sama skapi.

Helgi Hjörvar, formaður efnahags- og skattanefndar Alþingis, segir að ekki sé ráðlegt að ívilna of mikið í skattkerfinu vegna viðbótarsparnaðar á óvissu- og samdráttartímum.

„Þetta er tími þar sem stór hluti heimila þarf á tekjum sínum að halda og hagkerfið í heild á neyslu og fjárfestingu til að örva atvinnusköpun og efnahagsstarfsemina. Það eru slík sjónarmið sem mæla með því að draga úr skattaívilnunum vegna séreignarsparnaðar, en skattaívilnanir verða eftir sem áður nokkrar.“- kóp




Fleiri fréttir

Sjá meira


×