Skoðun

Nýr Landspítali

Elsa B. Friðfinnsdóttir skrifar
Fyrrverandi heilbrigðisráðherra varpaði fram þeirri spurningu á dögunum hvort réttlætanlegt væri að byggja nýjan Landspítala utan um úrelt tæki og þegar ekki væri hægt að greiða heilbrigðisstarfsfólki laun. Hann sagði jafnframt réttilega að steinsteypa ein og sér gæti aldrei orðið hátæknisjúkrahús.

Hvað skapar gott sjúkrahús eða góða heilbrigðisstofnun? Hvað þarf að vera fyrir hendi til að þjónusta við sjúklinga sé örugg og af þeim gæðum sem við ætlumst til? Að mínu mati er það þrennt: Mannafli, tækjabúnaður og húsnæði. Ekkert eitt af þessu skapar góðan spítala, þetta þrennt þarf að fara saman. Um ágæti mannaflans á Landspítala efast líklega fáir. Þó eru blikur á lofti eftir stöðugan niðurskurð undanfarinna ára og fækkun starfsmanna um 600 á þremur árum. Óhjákvæmilega kemur það niður á gæðum þjónustunnar. Þegar við bætist að spítalinn er hvergi nærri samkeppnisfær í launum við sjúkrahús erlendis sem sækjast eftir þekkingu og færni íslenskra hjúkrunarfræðinga og annarra heilbrigðisstarfsmanna, þegar álag er hér mun meira en þar og þegar starfsaðstaðan er ekki sambærileg, þá er hætt við að fólk „kjósi með fótunum".

Úr sér gengin tæki og óhentugt húsnæði geta ekki verið grunnur að góðri sjúkrahúsþjónustu. Það er ekki boðlegt að við sjúkdómsgreiningar þurfi jafnvel að notast við tæki sem komin eru þrisvar sinnum fram yfir ætlaðan endingartíma. Það er heldur ekki boðlegt að grundvallarþættir í sjúkrahúsrekstri, eins og sýkingavarnir, séu ótryggar vegna húsnæðis sem hvergi nærri uppfyllir nútímakröfur sem gerðar eru til sjúkrahúsbygginga.

Við þurfum nýjan Landspítala og við þurfum ný tæki ef við ætlum áfram að ná þeim árangri í heilbrigðisþjónustunni sem við þekkjum og teljum sjálfsagðan. Góð heilbrigðisþjónusta skapar mikil verðmæti, kemur í veg fyrir ótímabær dauðsföll og kemur fólki til starfa að nýju eftir sjúkdóma og slys. Til að skapa þessi verðmæti þarf heilbrigðisstarfsfólk sem vill starfa hér á landi vegna launa og álags, það þarf tæki sem standast nútímakröfur og síðast en ekki síst þarf húsnæði sem býður upp á að skipuleggja og veita „bestu mögulegu heilbrigðisþjónustu" eins og tilgreint er í lögum.




Skoðun

Sjá meira


×