Skoðun

Verðmæti í skapandi hugsun

Magnús Orri Schram skrifar
Danir hafa náð mjög langt í skapandi greinum og flytja meðal annars út tískuvörur fyrir 527 milljarða íslenskra króna á ári hverju. Við Íslendingar flytjum út tískufatnað fyrir um 3,1 milljarð á ári, en ef við myndum vilja vera á pari við Dani miðað við höfðatölu, ættum við að flytja út tíu sinnum meira eða nær 30 milljörðum króna. Með því að gefa skapandi greinum meiri gaum og veita ungum vaxandi fyrirtækjum betra rekstrarumhverfi er allt til staðar fyrir Íslendinga til að ná mun lengra á þessu sviði.

Hugverkaiðnaður (skapandi greinar) er sá vettvangur sem flestar þjóðir telja helsta vaxtarbrodd næsta áratugar. Sérstaklega er iðnaðurinn mikilvægur fyrir Ísland enda hefur atvinnugreinin næstum ótakmarkaða vaxtarmöguleika öfugt við aðrar útflutningsgreinar okkar sem byggja á takmörkuðum auðlindum. Þessi vaxtarsproti byggir hins vegar á hugviti fólks sem nær með frjórri hugsun, góðri hönnun og ímyndunarafli að skapa mikið virði og bæta þannig arðsemi fyrirtækja, auka útflutningstekjur og fjölga vel launuðum störfum sem eru eftirsótt hjá ungu fólki.

Á Íslandi starfa um 1.500 vel menntaðir hönnuðir og arkitektar. Það þarf að nýta þekkingu þessa fólk okkar atvinnulífi til framdráttar og skapa fyrirtækjunum í þessum geira öruggt og gott rekstrarumhverfi. Þess vegna telur Samfylkingin það lykilatriði að sótt sé um aðild að Evrópusambandinu til að losa fyrirtækin undan sveiflukenndum, ótraustum gjaldmiðli og bæta aðgengi að mörkuðum. Það er erfitt fyrir lítil fyrirtæki að reka útflutningsstarfsemi með veikan gjaldmiðil, gjaldeyrishöft og innan tollmúra. Þannig dregur krónan úr samkeppnishæfni þessara fyrirtækja og hár fjármagnskostnaður getur kæft góðar viðskiptahugmyndir.

Stjórnmálamenn eiga að einhenda sér í að skapa þessum geira góðan aðbúnað svo að styrkja megi helsta vaxtarsprota íslensks útflutnings. Skapandi greinar snúast ekki bara um fagurfræði heldur líka hagfræði.




Skoðun

Sjá meira


×