Skoðun

Félagsráðgjafar hafa fengið nóg

Um miðjan júnímánuð felldu félagsráðgjafar hjá Reykjavíkurborg samninga sem þeim voru boðnir með 75% greiddra atkvæða. Þessi grein er rituð í nafni starfandi félagsráðgjafa í Þjónustumiðstöð Laugardals og Háaleitis og verða í henni rakin sjónarmið þess hóps.

Allt frá því að þjónustumiðstöðvar Reykjavíkurborgar tóku til starfa árið 2005 hefur legið ljóst fyrir að félagsráðgjafar hafa búið við lökust kjör þeirra háskólastétta sem þar starfa. Við stofnun þjónustumiðstöðvanna komu saman fagaðilar frá Félagsþjónustunni, Fræðslumiðstöð Reykjavíkur og Leikskólum Reykjavíkur. Launakjör á þeim stöðum höfðu verið ærið misjöfn og ljóst að ekki var hægt að skýra þennan mun með lengd menntunar, ábyrgð eða álagi. Við gerð síðustu samninga árið 2006 var látið að því liggja að umræddur launamunur myndi jafnast út á skömmum tíma, með innleiðingu starfsmatskerfis og samningsbundnum hækkunum. Sú hefur ekki orðið raunin. Þvert á móti hafa fastlaunasamningar við aðra en félagsráðgjafa viðgengist áfram og starfsfólk með BA-próf verið híft upp í launum til jafns við félagsráðgjafa. Það er sláandi að lesa grein sem við félagsráðgjafar rituðum og birtist í Morgunblaðinu 26.02.2006, en þar stóð orðrétt: „Félagsráðgjafar telja sýnt að þeir séu ein lægst launaða háskólastéttin innan þjónustumiðstöðva Reykjavíkurborgar. Þeir vilja njóta jafnréttis í launum á við aðrar fagstéttir sem þar starfa, enda er um að ræða kjaramun sem ekki getur talist réttlætanlegur, hvort heldur sem tekið er mið af menntun, ábyrgð í starfi, álagi eða öðrum þáttum. Í flestum tilvikum er ekki endilega um að ræða grófan mun á grunnlaunum umræddra stétta, heldur þá staðreynd að sumum stéttum hefur verið boðið upp á einhvers konar fastlaunasamninga, sem fela í sér óunna yfirvinnu, lesdaga o.þ.h. Á sama tíma hafa félagsráðgjafar sem vinna hjá Reykjavíkurborg sjaldnast möguleika á að auka tekjur sínar, þar sem þeir sæta nær undantekningalausu yfirvinnubanni. Mismunurinn á kjörum félagsráðgjafa og þessara stétta skýrist af ofangreindum uppbótum og dæmin sýna að hann nemur allt að 100.000 kr. á mánuði." Það er sorglegt en satt að þessi orð eiga jafn vel við í dag og þegar þau voru sett á blað fyrir rúmum 5 árum síðan. Slíkur hefur vilji Reykjavíkurborgar til að jafna launamisrétti verið.

Í dag eru félagsráðgjafar fjölmennasti faghópurinn á skrifstofum Þjónustumiðstöðva Reykjavíkur, þrátt fyrir að erfiðlega hafi gengið að manna stöður þeirra með ráðningu löggiltra félagsráðgjafa undanfarin misseri. Af fjöldanum má þó ljóst vera að þáttur félagsráðgjafa í starfsemi þjónustumiðstöðvanna er drjúgur.

Við leyfum okkur að fullyrða að af fagstéttum innan borgarkerfisins hafi álag aukist einna mest á félagsráðgjöfum eftir hrun efnahagskerfisins. Vorið 2010 var gerð könnun á álagi meðal starfsmanna Reykjavíkurborgar. Niðurstöður hennar gáfu ótvírætt til kynna að starfsmenn velferðarsviðs og þ.m.t. þjónustumiðstöðva þess, teldu of mikið álag í störfum sínum og að það hefði aukist undangengna 12 mánuði. Þessi upplifun var mun meiri meðal þessa hóps en hjá starfsmönnum Reykjavíkurborgar almennt. Mest álag innan velferðarsviðs upplifðu fagaðilar sem voru í miklum tengslum við þjónustuþega, s.s. félagsráðgjafar.

Til að setja umræðuna um álag í starfi félagsráðgjafa í frekara samhengi má nefna að þeim sem fengu fjárhagsaðstoð/heimildargreiðslur hjá Reykjavíkurborg fjölgaði um 48,7% milli áranna 2007 og 2010. Það sem af er þessu ári (eða frá janúar til maí 2011) hefur þeim sem njóta fjárhagsaðstoðar til framfærslu á þjónustusvæði Laugardals og Háaleitis fjölgað um 25,1%. Mikilvægt er að hafa hugfast að fjárhagsaðstoð er einungis hluti þeirra verkefna sem félagsráðgjafar í þjónustumiðstöðvum borgarinnar sinna. Þörf einstaklinga og fjölskyldna fyrir félagslega ráðgjöf og stuðning er nú síst minni en áður.

Á næstunni er að vænta annarrar greinar frá félagsráðgjöfum í Þjónustumiðstöð Laugardals og Háaleitis.

Þar verður vikið frekar að samanburði við aðrar háskólamenntaðar stéttir hjá Reykjavíkurborg og þeirri staðreynd að félagsráðgjafar sem starfa í þjónustumiðstöðvum Reykjavíkurborgar búa við lakari kjör en kollegar þeirra hjá öðrum sveitarfélögum.

Þorbjörg Róbertsdóttir félagsráðgjafi


Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Skoðun

Skoðun

Saman gegn ríkisofbeldi

Vilhjálmur Yngvi Hjálmarsson,Örlygur Steinar Arnaldsson,Sigurhjörtur Pálmason,Simon Valentin Hirt,Kristbjörg Arna E. Þorvaldsdóttir,Ari Logn,Margrét Rut Eddudóttir skrifar

Sjá meira


×