Skoðun

Hefurðu kíkt á reiknivélina?

Guðmann Bragi Birgisson skrifar
Fjarskiptamarkaðurinn og sérstaklega farsímamarkaðurinn er á töluvert mikilli hreyfingu þar sem nýjar áskriftir koma fram oft á ári og verð áskriftarleiða og mínútuverð taka örum breytingum. Þetta gerir markaðinn ógegnsæjan og neytendur sem vilja fylgjast með því hvaða þjónustuleið er ódýrust og hentar best fyrir þá hafa þurft að hafa talsvert fyrir því að afla sér upplýsinga til að bera saman verð á þessum markaði. Auk stöðugra breytinga á þjónustuleiðum bætast fyrirtæki við og á síðustu mánuðum hafa ný fyrirtæki komið inn á markað netþjónustu, heimasíma og farsíma.

Reiknivél PFS (www.reiknivél.is) sem opnuð var á síðasta ári gjörbreytti aðstöðu neytenda til að fylgjast með og bera saman verð á fjarskiptaþjónustu. Reiknivélin er vefur á vegum Póst- og fjarskiptastofnunar sem reiknar út verð fyrir þrjár algengustu tegundir fjarskiptaþjónustu; heimasíma, farsíma og ADSL-nettengingar, út frá forsendum sem notandi velur í hvert sinn sem reiknað er.

Reiknivélin tekur ekki tillit til persónubundinna sérkjara svo sem vinaafsláttar, né heldur pakkaafsláttar, heldur er gengið út frá uppgefnu einingaverði á hverri tegund þjónustu. Ástæða þess að ekki er tekið tillit til pakkaafsláttar í reiknivélinni er að samsetning pakka er mjög fjölþætt og illa samanburðarhæf. Neytendur sem eru að huga að því hvað hentar þeim best ættu því að skoða notkun sína á einstökum þáttum fjarskiptaþjónustu, t.d. hversu mikil heimasímanotkunin er, hve mikil og hvernig farsímanotkunin er og hversu mikið gagnamagn er raunverulega verið að nota. Síðan má nota reiknivélina til að reikna út hagkvæmasta verð á hverjum þætti fyrir sig. Algengt er t.d. að fólk kaupi þjónustuleið fyrir ADSL-nettengingu með inniföldu gagnamagni sem er ýmist of mikið eða of lítið fyrir hina raunverulegu notkun heimilisins.

Neytendur eru hvattir til að skoða reikninga sína fyrir fjarskiptaþjónustu og kynna sér hvernig hin raunverulega notkun þeirra er og hvort sú áskriftarleið sem verið er að nota sé sú sem er hagkvæmust. Í þessu sambandi skal þó tekið fram að ekki er hægt að nota Reiknivél PFS til að sannreyna einstaka símareikninga. Til þess eru of margir þættir í þjónustu og notkun persónubundnir einstökum notendum.

Ég hvet íslenska neytendur til að kynna sér það góða verkfæri sem Reiknivél PFS er og nota það sér til hagsbóta þegar hugað er að vali á fjarskiptaþjónustu.




Skoðun

Sjá meira


×