Skoðun

Úti í móa

Guðni Th. Jóhannesson skrifar
Geir H. Haarde ber ekki ábyrgð á bankahruninu á Íslandi. Hann braut ekki lög. Hann gerði sitt besta þegar í óefni var komið haustið 2008. En þar með er ekki sagt að hann eða aðrir ráðamenn hafi í öllu staðið sig vel fyrir hrun og þegar það dundi yfir. Í aðdragandanum var andvaraleysið of mikið og þegar holskeflan reið yfir var reynt að grípa til örþrifaráða sem dugðu einfaldlega ekki.

Geir var ekki einn um að bregðast seint og illa við því sem er svo auðvelt að sjá eftir á. Árið 2005, þegar gríðarleg lántaka bankanna stóð sem hæst, dásamaði Halldór Ásgrímsson, forveri hans á stóli forsætisráðherra, „íslenska efnahagsundrið“. Árið 2007 svaraði Árni M. Mathiesen, fjármálaráðherra í stjórn Geirs H. Haarde, þeim sem vöruðu við ofhitnun í íslenskum efnahag með því að spyrja: „Drengir, sjáið þið ekki veisluna?“

Mörg önnur dæmi mætti taka. „Sú einarða afstaða ríkisstjórnarinnar að standa við bakið á fjármálakerfinu okkar var rétt og frá henni verður hvergi hvikað,“ sagði Ingibjörg Sólrún Gísladóttir utanríkisráðherra í september 2008. Síðar í þeim mánuði reyndu Seðlabankinn og ríkisstjórnin að bjarga Glitni með því að eignast meirihluta í honum fyrir fúlgu fjár. Í byrjun október átti að bjarga Kaupþingi með risaláni. Um svipað leyti vonaði Geir H. Haarde, ef marka má orð hans í fjölmiðlum, að Landsbankinn stæði af sér fjármálastorminn, sem þá geisaði um allan heim, vegna þess að þar á bæ hefðu menn haft vit á að safna svo miklu af innlánum í útlöndum. Í blálokin hugleiddu stjórnvöld líka að láta lífeyrissjóðina koma bankakerfinu til bjargar. Vandinn var bara orðinn svo mikill að menn réðu ekki við hann. Í því felst lítil stjórnlist.

Skaparar sögunnar ætla augljóslega að skrifa hana líka. Það er skiljanlegt, ekki síst ef menn þurfa að taka til varna í pólitískum réttarhöldum. Þar að auki er sumt af því sem eftiráspekingar halda fram svo ósanngjarnt að fólki hlýtur að svella móður. En ýmis orð að undanförnu um snilld íslenskra ráðamanna í hruninu eru samt líkust því að ökumaður, sem missti stjórn á bíl sínum þannig að hann valt ótal sinnum áður en hann stöðvaðist ónýtur úti í móa, segi sigri hrósandi: „Sjáiði bara, ég náði að láta hann lenda á hjólunum.“




Skoðun

Skoðun

Er þetta eðli­legt?

Guðrún Árnadóttir,Guðrún Tara Sveinsdóttir,Hekla Kollmar,Þorgerður Jörundsdóttir skrifar

Sjá meira


×