Skoðun

Samningaviðræður hafnar

Stefán Haukur Jóhannesson skrifar
Á mánudaginn 27. júní síðastliðinn urðu tímamót í því ferli sem hófst þegar Alþingi Íslendinga samþykkti að fela ríkisstjórn að sækja um aðild að Evrópusambandinu. Þá hófust eiginlegar aðildarviðræður um fyrstu fjóra samningskaflana. Viðræðurnar fóru vel af stað því þegar á fyrsta degi var lokið viðræðum um tvo kafla, menntun og menningu, og um vísindi og rannsóknir.

Mikilvæg málefnasvið
Björg Thorarensen, varaformaður samninganefndar Íslands
Þessir samningskaflar fjalla um mikilvæg málefnasvið á Íslandi því hér sem annars staðar leggja menntun og menning, vísindi og rannsóknir grunninn að framþróun, fjölgun starfa, sköpun verðmæta og samfélagslegri velferð. Í gegnum EES-samstarfið hafa Íslendingar átt hlutdeild í samvinnu Evrópuríkjanna á þessum sviðum í gegnum áætlanir ESB. Þúsundir íslenskra kennara, nemenda, vísindamanna og ungmenna hafa á sl. 17 árum tekið virkan þátt í rannsóknaverkefnum, nemenda- og kennaraskiptum, skólaheimsóknum, samstarfi um þróun námsefnis og í margvíslegu menningarsamstarfi svo dæmi séu nefnd. Aðild að ESB myndi treysta enn frekar þessa samvinnu.

Aukinn skilningur
Þorsteinn Gunnarsson, varaformaður samninganefndar Íslands
Á síðustu sjö mánuðum hafa sérfræðingar Íslands og Evrópusambandsins borið saman bækur um lög og reglur í mismunandi málaflokkum til að afmarka betur hvað semja þarf um. Í þessari rýnivinnu hefur komið í ljós að Ísland stendur vel að vígi. Í gegnum þátttöku okkar í EES- og Schengen-samstarfinu höfum við þegar tekið upp í íslensk lög meirihluta af þeim lagaköflum ESB sem nú eru til umræðu. Af aðild Íslands að Sameinuðu þjóðunum, Atlantshafsbandalaginu, EFTA, Evrópuráðinu og ýmsum svæðisbundnum samtökum leiðir að löggjöf okkar og hefðir eru um flest afar lík því sem gerist hjá Evrópusambandsríkjunum. Sú staðreynd að sérfræðingar okkar hafa uppskorið lof af hálfu framkvæmdastjórnar ESB fyrir þekkingu og fagmennsku er sömuleiðis gott veganesti inn í viðræðurnar. Í gegnum þessar viðræður hefur verið safnað saman og gerð grein fyrir umfangsmiklum upplýsingum um íslenska löggjöf á lykilsviðum samfélagsins og hefur þessi vinna m.a. aukið skilning viðsemjenda okkar á stöðu íslensks samfélags meðal Evrópuþjóða.

Vandasamar viðræðurEn þó að löggjöf Íslands og ESB sé um margt lík er engu að síður verk að vinna í þeim málefnasviðum sem standa utan EES-samningsins, einkum í sjávarútvegi, landbúnaði, í byggða- og atvinnumálum og að hluta til í umhverfismálum. Það verður ekki auðvelt að ná fram hagfelldri niðurstöðu í öllum þessu málaflokkum og það mun krefjast atorku og útsjónarsemi að sannfæra Evrópusambandsríkin 27 um að Ísland þurfi að fá fram ákveðnar sérlausnir sem taki tillit til aðstæðna hér. Samninganefnd Íslands og þeir samningahópar sem vinna með henni vinna nú hörðum höndum að því að móta ítarlega samningsafstöðu Íslands á grunni samningsmarkmiða Alþingis og líta til fordæma fyrir sérlausnum í aðildarsamningum annarra ríkja. Ekki er samið um alla samningskaflana 35 samtímis heldur veltur það á framvindu undirbúnings bæði hér heima og í Evrópu hvaða kaflar eru opnaðir og í hvaða röð.

Þátttaka hagsmunaaðilaÞað skipulag sem sett var á fót í upphafi aðildarferlisins og lagt var upp með í áliti meirihluta utanríkismálanefndar Alþingis hefur reynst vel. Í samninganefnd Íslands eiga sæti 18 einstaklingar, 9 karlar og 9 konur. Undir samninganefndinni starfa 10 samningahópar um einstök málefnasvið. Fulltrúar stjórnsýslunnar, stofnana, hlutaðeigandi hagsmunaaðila og frjálsra félagasamtaka eiga sæti í samningahópunum og hafa tekið virkan þátt í efnislegum undirbúningi fyrir samninga um mál sem þau varða. Fulltrúar sjómanna og útvegsmanna eiga t.d. sæti í samningahópi um sjávarútvegsmál, fulltrúar bænda og neytenda eiga sæti í samningahópi um landbúnaðarmál og fulltrúar sveitarfélaga eiga sína fulltrúa í hópnum um byggðamál og atvinnuuppbyggingu. Þetta tryggir breiða þátttöku í því veigamikla verkefni sem aðildarviðræður við Evrópusambandið er. Alþingi gegnir einnig lykilhlutverki í öllu ferlinu, þar sem fjallað er um allt sem formlega er lagt fram í viðræðunum af Íslands hálfu með viðeigandi hætti innan þingsins.

LokaorðHlutverk okkar í samninganefndinni er skýrt: Að ná sem bestum samningi fyrir Ísland. Okkar er einnig að tryggja að samningaferlið sé opið og gegnsætt. Við munum áfram tryggja að öll viðeigandi gögn og upplýsingar sem tengjast aðildarviðræðunum séu aðgengilegar á heimasíðu viðræðnanna þannig að allir Íslendingar geti kynnt sér málin af eigin raun og myndað sér skoðun. Þar má nú t.d. finna samningsafstöður Íslands í þeim köflum sem viðræður hófust um í vikunni. Þegar samningar hafa náðst og niðurstaðan liggur fyrir mun íslenska þjóðin eiga lokaorðið í þjóðaratkvæðagreiðslu. Þangað til munum við standa þétt saman um hagsmuni Íslands í þessum samningaviðræðum.




Skoðun

Sjá meira


×