Skoðun

Aðild að ESB; landbúnaður og byggðamál

Ólafur Arnalds skrifar
Landbúnaðarmál og byggðamál eru meðal málaflokka sem standa út af í núverandi EES-samstarfi og landbúnaður er mögulega ásteytingarsteinn í tengslum við hugsanlega aðild að ESB. Eftir að samningar nást á milli Íslands og ESB er kosið um aðild. Sé hún samþykkt sitja Íslendingar uppi með þá samninga sem gerðir eru, afar erfitt er að breyta eftir á. Þetta á m.a. við um landbúnað og byggðamál.

Samningar þurfa að byggja á víðtækri faglegri vinnu þar sem kostir og möguleikar eru skoðaðir til að móta samningsmarkmið. Sú vinna hefur ekki farið fram, en það er afar mikilvægt að svo verði, því annars er hætta á að íbúar í dreifbýli sitji uppi með mun verri samning en ella.

Rétt er að hafa í huga að stuðningur við landbúnað og dreifbýli á Íslandi er í mjög þröngum farvegi þar sem tvær búgreinar njóta gríðarlega mikils stuðnings (>16 milljarðar á ári, tollavernd meðtalin). Engin áþreifanleg stefnumótun hefur átt sér stað um þennan stuðning né hefur verið kannað hverju hann skilar. Ekki hefur verið rannsakað hvaða aðrir kostir koma til greina til þess að tryggja og bæta búsetuskilyrði í hinum dreifðu byggðum landsins. Sendinefnd ESB (Scoping Mission) komst að þeirri niðurstöðu að engin dreifbýlisstefna hefði verið mótuð fyrir landið.

Það er stefna ESB að færa styrki frá stuðningi við framleiðslu til stuðnings við fjölbreytt atvinnulíf og mannlíf í dreifbýli. Fábreytt framleiðsla skapar ekki það fjölbreytta samfélag sem þarf til að viðhalda byggð til lengri tíma. Þá verður það æ vafasamara út frá jafnræðissjónarmiðum að greiða styrki til einnar greinar en lítið eða ekki til annarrar greinar.

En þróun sem þessi er flókin og krefst víðtækrar faglegrar vinnu; rannsókna á mörgum fræðasviðum. Landbúnaðarstefna ESB (Common Agricultural Policy; CAP) byggir á tveimur stoðum: framleiðslustoð (Pillar 1) og dreifbýlisstoð (Pillar 2). Margs kyns stuðningur kemur til álita samkvæmt 2. stoðinni: umhverfismál, menntun og menning, ferðaþjónusta o.fl. sem hentar hverju svæði eða þjóðríki. Þessi þáttur verður æ fyrirferðameiri á meðan leynt og ljóst er verið að draga úr beinum framleiðslustuðningi, m.a. í takt við alþjóðlega þróun í heimsviðskiptum og til að draga úr misræmi og hlutdrægni.

Það er mikilvægt að afstaða til aðildar að ESB sé tekin á grunni þekkingar á kostum og göllum aðildarinnar, og ekki síður á þeim möguleikum sem aðild kynni að skapa, t.d. á sviði uppbyggingar í dreifbýli landsins. Sérstaða landsins er mikil og möguleikar eru fyrir hendi að þróa samningsmarkmið sem gætu haft mjög hagfelld áhrif á þróun dreifbýlis á Íslandi. Slík vinna þarf í raun að fara fram án tillits til aðildar að ESB með hagsmuni dreifbýlis á Íslandi að leiðarljósi. Er ekki rétt að fara að byrja?




Skoðun

Sjá meira


×