Skoðun

Niðursoðnir útkjálkar

Ingimundur Gíslason skrifar
Frændi minn, Jóhannes Arason (1913-2009), og um tíma bóndi á Múla í Gufudalssveit í Barðastrandasýslu, vann marga vetur við saltfiskverkun í Grindavík. Fyrrum bóndi á Stóra-Vatnsskarði í Skagafirði, Benedikt Pétursson (1892-1964), fór ungur gangandi úr Skagafirði til skólavistar í Flensborg í Hafnarfirði. Framangreindar athafnir þessara manna eru góð dæmi um þann hreyfanleika sem um aldir hefur einkennt íslenska þjóð. Hreyfanleika sem meðal annarra er ein orsök þess að vart er hægt að tala um mállýskur í íslenskri tungu.

Íslenskum pólitíkusum er mikið í mun að varðveita það sem er, einkum þeim sem eru upp á atkvæði landsbyggðarinnar komnir. Þeir vilja til að mynda að byggðir strjálbýlis haldist áfram óbreyttar að íbúatölu og atvinnustarfsemi. Þetta kalla þeir byggðastefnu og hún virðist mega kosta næstum því hvað sem er. Hinir sem ekki búa úti á landi skulu borga brúsann.

Byggðastefnan felst aðallega í því að sjóða niður núverandi stöðu byggða úti á landi, leggja í krukku með formalíni, varðveita, konservera. Einn hluti nýlegs frumvarps Jóns Bjarnasonar sjávarútvegsráðherra er á þessum nótum. Þar á að úthluta byggðakvóta til fiskveiða, talað er um línuívilnun og ég veit ekki hvað og hvað. Hugtök eins og hagkvæmni, arðsköpun, bætt lífskjör allra landsmanna eru þar aukaatriði. Formaður sjávarútvegsnefndar segir að samfélagsleg sjónarmið skipti ekki síður máli en þau hagfræðilegu. En í samfélagi hverra? Er niðursuða byggða við sjávarsíðuna samfélagsleg aðgerð? Spyr sá sem ekki veit.

Íslenskar sjávarbyggðir eiga betra skilið en að verða að eins konar rómantískum sælureitum fyrir útlenda ferðamenn, þorpum þar sem fáeinir smábátar leggja að landi í sumarblíðunni með nokkra fiska innanborðs. Eða að unaðsreitum fyrir örfáa útvalda líkt og Petit Trianon var í Versölum á tíma Lúðvíks sextánda Frakkakonungs þar sem spúsa hans, Marie Antoinette, og hirðdömur hennar mjólkuðu kýr í tötrum sveitakvenna.

Stærsta, og raunverulega hið eina, byggðavandamál á Íslandi er það að landið haldist ekki í byggð sem þróttmikið samfélag framfara, hreyfanleika og blómstrandi mannlífs. Mikilvægt er að það takist að stöðva vaxandi atgervisflótta til útlanda og að ungt menntað fólk vilji búa á Íslandi.

Ísland má nefnilega ekki verða steinrunnið byggðasafn.




Skoðun

Sjá meira


×