Skoðun

Skólastarf í landi fjölbreyttra lífsskoðana

Þann 25. júní skrifar Ragnar K. Gestsson grein á vísir.is þar sem hann andmælir tillögum mannréttindaráðs Reykjavíkur um aðskilnað trúboðs og skólastarfs. Hann segir að ráðið sé með þessu að „gerilsneyða skólastarf á Íslandi“ og að það vilji „stíga þetta fyrsta skref frá þeim sjálfsögðu mannréttindum að njóta uppfræðslu í trúarlegu starfi í landi þar sem þjóðkirkja er kristin, ...“. Hverjum sýnist greinilega sinn gerill fagur og Ragnari finnst það eyðing á sínum gerli að fá ekki að uppfræða „í trúarlegu starfi“ innan skólanna. Það er gott að hann viðurkennir að um trúarlegt starf sé að ræða því að það er kjarni málsins. Skólar „eru ekki trúboðsstofnanir“ samkvæmt Námsskrá og uppfræðsla á að fara fram á óhlutdrægan og fræðilegan máta, en ekki gegnum trúarlegt starf. Hvers vegna? Jú, vegna þess að almennir skólar eru fyrir alla Íslendinga, ekki bara þá kristnu. Fagleg óhlutdræg vinnubrögð gefa börnunum tækifæri til að móta sínar eigin skoðanir á sjálfstæðan máta.

Merkilegt nokk skrifar Ragnar einnig: „Látum skólastarf verða grundvöll fyrir skoðanaskipti um gæði hluta, hugsunar og skoðana og brýnum fyrir börnum okkar gagnrýna hugsun.“ Hvaða Ragnar K. er að skrifa hér? Þessi Ragnar virðist vera svo frjálslyndur, en hann skilur ekki að til þess að skapa grundvöll fyrir skoðanaskipti og gagnrýna hugsun þarf grunnur skólastarfs að mótast af óhlutdrægni og fræðimennsku. Þegar kristið trúarlegt starf er notað til að uppfræða er búið að ákveða fyrir börnin af hvaða sjónarhóli þau eigi að horfa. Orð þessa frjálslynda Ragnars K. verða enn athyglisverðari þegar hann heldur áfram með: „Við viljum ekki ala upp kynslóðir sem vegna ofverndar og mötunar hafa hvorki getu til að hugsa sjálfstæða hugsun né taka sjálfstæða ákvörðun.“ Samt er hann að stinga upp á verndun barnanna frá hlutlausu skólastarfi því að honum finnst það ógn við „þá áfangasigra sem 1.000 ára kristni í landinu hefur fært okkur.“ Í hlutlausu skólastarfi gætu þau einmitt fengið að móta sínar eigin skoðanir í friði byggðum á góðum upplýsingum og fræðslu frá kennurum.

Það er þó ljóst að þetta er Ragnar K. trúboði sem talar og hann þykist hafa tromp uppi í erminni með því að vísa í framhaldinu til valfrelsis: „Ólíkt mannréttindaráði treysti ég íslensku börnum okkar til að taka upplýsta ákvörðun með foreldrum sínum hvort heldur þau vilja ganga í skátana, tilheyra kristinni kirkju eða stunda íþróttir.“ Stopp, stopp, stopp. Reglur ráðsins kveða á um að trúboð og trúarleg starfsemi eigi ekki heima í skólunum, en ekki hvort foreldrar barnanna ákveði saman hvort þau gangi í trúfélög eða önnur frjáls félög. Það er því ekki um neitt vantraust að ræða af hálfu mannréttindaráðs gagnvart foreldrum og börnum. Hvílík steypa. Ragnar trúboði ætti að fá útnefningu til heiðursverðlauna þrætubókarlistaráðs fyrir þetta útspil.

Svo koma skátarnir og íþróttaiðkun samskiptareglum mannréttindaráðs heldur ekkert við. Vissulega yrði einhver að grípa inní ef t.d. Melaskóli færi að innræta börnum skólans að KR væri hið eina sanna íþróttafélag og aðeins KR fengi að senda inn útsendara sína til að fá börnin til sín. Sungið yrði í skólastofunum „Áfram KR, áfram KR ...“. Reykjavík væri jú borg KR-inga. Málið er bara að íþróttafélög og forysta íþrótta í landinu hafa ekki skapað það andrúmsloft mismununar eins og Þjóðkirkjan hefur gert. ÍSÍ er hlutlaus samnefnari íþrótta en þjóðkirkjan er ekki samnefnari lífsskoðana á Íslandi því að hún heldur bara með einni trú og finnst sjálfsagt að mismuna á þeim grundvelli.

Ragnar nefnir grein sína: „Skólastarf í kristna landinu Íslandi“. Af hverju gekk hann ekki skrefinu lengra og sagði: „..í hvíta, kristna landinu Íslandi“? Svona skrifar bara fólk sem er blindað af sjálfsánægju yfir meintri eigin meirihlutastöðu. Ísland er ekki bara kristið land. Hér eru í tugþúsundum talið trúlaust fólk (25-30% íbúa), ásatrúarfólk og fjöldi fólks í öðrum smærri trúfélögum. Þrátt fyrir að um 70% telji sig trúaða eru aðeins um 43% sem telja sig kristna (þjóðarpúls Capacent 2011). Trúfélagaskráningin endurspeglar ekki raunverulegar lífsskoðanir fólks. Réttast er að segja að Ísland sé land fjölmenningar þar sem kristni er stærsti einstaki lífsskoðunarhópurinn. Það gefur kristnum ekki rétt til að merkja sér einum Ísland. Umburðarlyndi í raun gefur pláss fyrir fjölbreytileikann og mismunar ekki. Lykilhugtak í lýðræði er bann við mismunun (jöfn meðferð yfirvalda) og með því að styðja við tillögu mannréttindaráðs erum við að færa okkur í átt til þroskaðra lýðræðis, þess lýðræðis sem þjóðin þarf nauðsynlega á að halda um ókomna framtíð.




Skoðun

Sjá meira


×