Viðskipti innlent

Fjárfestu ekki skynsamlega

ASÍ telur breytingar á fiskveiðistjórnunarkerfinu geta komið í veg fyrir að gengi krónunnar styrkist jafn mikið og það eigi að gera. Fréttablaðið/JSE
ASÍ telur breytingar á fiskveiðistjórnunarkerfinu geta komið í veg fyrir að gengi krónunnar styrkist jafn mikið og það eigi að gera. Fréttablaðið/JSE
„Útgerðarmenn hafa verið áhættusæknir í fjárfestingum sínum sem margar hafa gefist illa. Það er óvarlegt að draga þær ályktanir að breytingar á fiskveiðistjórnunarkerfinu hafi neikvæð áhrif á raungengið,“ segir ÞórólfurMatthíasson, prófessor við hagfræðideild Háskóla Íslands.

Í drögum að minnisblaði hagdeildar Alþýðusambands Íslands (ASÍ) um þær breytingar sem fyrirhugaðar eru á kvótakerfinu kemur fram að það veiki rekstrargrundvöll sjávarútvegsfyrirtækja og geti hamlað gengisstyrkingu krónunnar. Þá geta áhrifin orðið þau að verðmæti fyrirtækjanna minnki og því haft neikvæð áhrif á lánasöfn bankanna.

Drögin verða lögð fram fyrir miðstjórn ASÍ á miðvikudag og mun það liggja til grundvallar afstöðu sambandsins til kvótafrumvarpanna.

ASÍ hefur gefið út að raungengi krónunnar sé of lágt nú um stundir og gæti það að óbreyttu styrkst um 20 til 25 prósent. Í drögum að minnisblaði kemur fram að fyrirhugaðar breytingar á kvótakerfinu setji strik í reikninginn.

Stoðir sjávarútvegsfyrirtækjanna sem atvinnugreinar verði veikari en ella, sérstaklega tengsl veiða og vinnslu, sem sé fjármagnsfrekur liður.

Óvissan geti leitt til þess að fjárfesting í nýjum tækjum dragist saman og að samkeppnishæfni íslensk sjávarútvegs falli gagnvart keppinautum.

Af þeim sökum sé ósennilegt að sú gengisstyrking gangi eftir sem ASÍ reiknaði með. Ólafur Darri Andrason, hagfræðingur ASÍ, vildi ekki tjá sig um minnisblaðið í samtali við Fréttablaðið.

Þórólfur bendir á að þegar útgerðarmenn hafi verið hvað tryggasta með kvótann hafi þeir ekki fjárfest í sjávarútvegi heldur flutt umframhagnað yfir í aðrar atvinnugreinar, byggt stórhýsi í Reykjavík, keypt verslanir og banka. „Útgerðarmenn hafa verið mjög áhættusæknir í fjárfestingum sínum og ekki farið vel út úr þeim. Það er því mjög óvarlegt að draga þessar ályktanir um áhrif á raungengið,“ segir hann.

jonab@frettabladid.is






Fleiri fréttir

Sjá meira


×