Viðskipti innlent

Átti að sækja um 160 undanþágur

Lúðvík sendi Seðlabankanum undanþágubeiðni í maí og óskaði eftir því að fá staðfestingu fyrir móttöku til baka. Hann lét frímerki fylgja með svo Seðlabankinn slyppi við burðargjaldið. Í svarbréfi Seðlabankans fylgdi frímerkið með ásamt skýringum.
Fréttablaðið/Vilhelm
Lúðvík sendi Seðlabankanum undanþágubeiðni í maí og óskaði eftir því að fá staðfestingu fyrir móttöku til baka. Hann lét frímerki fylgja með svo Seðlabankinn slyppi við burðargjaldið. Í svarbréfi Seðlabankans fylgdi frímerkið með ásamt skýringum. Fréttablaðið/Vilhelm
„Ég er á móti því að einn fái undanþágu en ekki annar,“ segir Lúðvík Júlíusson. Hann hefur staðið í stappi við Seðlabankann um nokkurra mánaða skeið til að fá gjaldeyrishöftunum breytt. Hann vill láta gera þau mannlegri, fólk sé ekki reitir í excel-skjali.

Lúðvík hefur sent umboðsmanni Alþingis og Eftirlitsstofnun EFTA, ESA, kvörtun vegna gjaldeyrishaftanna enda telur hann á sér brotið. Lúðvík á erlendar eignir en er skikkaður til að skila fjármagnstekjum af þeim heim í samræmi við reglur um skilaskyldu á gjaldeyri. Ekki er um háar fjárhæðir að ræða.

Hann var sjómaður í Sandgerði og byggði upp sparnað með mjög dreifðri fjárfestingu utan landsteinanna þegar gengi krónunnar var sterkt. Þær skila honum um eitt þúsund Bandaríkjadölum á ári, tæpum 115 þúsund krónum, sem dreifast á 160 eignir. Arður af hverri fjárfestingu er mjög lítill.

Samkvæmt reglum um skilaskyldu á sá sem er með eina milljón evra, jafnvirði 160 milljóna króna, í erlendar fjármagnstekjur hvorki að tilkynna það til Seðlabankans né skila þeim heim sé féð nýtt til endurfjárfesta erlendis. Vaxtatekjum upp á eitt evrusent, 1,65 krónur, þarf að skila til Seðlabankans eða sækja um undanþágu.

„Ég er ekki að fara fram á forréttindi heldur er ég aðeins að fara fram á sömu réttindi og þeir sem eru með háar fjármagnstekjur fá í gjaldeyrishöftunum,“ segir Lúðvík.

Hann sótti um undanþágu frá gjaldeyrishöftunum í fyrra en fékk neitun á þeim forsendum að tekjurnar ógnuðu stöðugleika í gengis- og peningamálum. Hann segir að þar sem upphæðirnar dreifist yfir árið kosti það sig um 65 þúsund krónur að skila fénu heim.

Lúðvík kærði upphaflega ákvörðun Seðlabankans til efnahags- og viðskiptaráðuneytis en fékk þau svör að ákvörðun Seðlabankans hefði verið gild. Bent var á að hann yrði að senda undanþágur fyrir hverja greiðslu sem honum bærist, alls 160 beiðnir. Í kjölfarið sendi hann inn sautján undanþágubeiðnir, þar af eina upp á átta evrusent, þrettán íslenskar krónur. Svör bárust mishægt, í sumum tilvikum þurfti hann að bíða í á fjórða mánuð. Þetta skilaði honum á endanum undanþágu til hálfs árs.

Lúðvík sótti enn á ný um undanþágu frá höftunum um miðjan síðasta mánuð og barst svar daginn eftir þar sem fram kom að afgreiðslutími erindisins væri að lágmarki fjórar vikur. Útgerðarfélagið Samherji fékk um svipað leyti heimild til að taka út rúmar 1,2 milljónir króna í evrum og pundum sama dag og beiðni barst vegna fyrirhugaðs ferðalags nokkurra starfsmanna til Brussel í apríl.

„Ég kvartaði undan þessum vinnubrögðum,“ segir Lúðvík og átelur Seðlabankann fyrir mismunun.jonab@frettabladid.is






Fleiri fréttir

Sjá meira


×