Skoðun

Dagur barnsins

Eðvald Einar Stefánsson skrifar
Fyrir mig sem foreldri er fátt jafn dýrmætt og samverustund með börnunum mínum. Að setjast á gólfið í barnaherberginu og skapa meistaraverk úr legókubbum getur fullkomnað daginn fyrir mig sem foreldri og ekki síst fyrir börnin mín. Sú samverustund er ekki bara dýrmæt fyrir mig heldur er hún gull í augum barnanna.



Við megum aldrei gleyma að það erum ekki við foreldrarnir sem eigum börnin heldur eru það börnin sem eiga okkur foreldrana að. Við erum þau fyrstu sem þau kynnast og þau fyrstu sem þau læra af. Þau treysta því að við berum hag þeirra fyrir brjósti og það er okkar að halda í það traust og veita þeim alla þá athygli og umhyggju sem við mögulega getum.



Síðasti sunnudagurinn í maí er dagur barnsins að því undanskildu að hvítasunnudagur lendi ekki á sama degi. Í ár er dagur barnsins nú á sunnudaginn kemur. Í hinum fullkomna heimi væru að sjálfsögðu allir dagar „dagur barnsins“ en við vitum vel að svo er ekki. Skyldur okkar eru margar og þær fara ekki alltaf vel saman við hugmyndir okkar um að eiga góða samveru með börnunum.



Á degi barnsins ættum við að prófa að leggja allar skyldur okkar til hliðar ef við mögulega getum og láta börnin njóta þess að eiga samveru með þeim sem standa þeim næst. Það þarf ekki að kosta neitt að eiga ánægjulega stund með barninu sínu heldur er megin tilgangur dagsins að setja barnið í öndvegi.



Börn geta einnig haft ákveðnar hugmyndir um það hvernig þau vilja eyða deginum með foreldrum sínum eða þeim sem standa þeim næst. Hlustum á þær raddir og leyfum börnunum að hafa áhrif. Ef þau vilja vakna snemma og horfa á teiknimyndir með foreldrunum þá vöknum við snemma og horfum á teiknimyndir saman, ef þau vilja fara út í hjóla- eða göngutúr þá gerum við akkúrat það. Dagurinn er þeirra, njótum hans saman og gerum það sem börnunum finnst mest gaman.




Skoðun

Sjá meira


×