Skoðun

Skattahækkanir í Reykjavík voru óþarfar

Hanna Birna Kristjánsdóttir skrifar
Ársreikningur Reykjavíkurborgar 2010, sem lagður var fram í borgarstjórn á þriðjudag, staðfestir þann mikla árangur sem náðist með nýjum vinnubrögðum og góðri sátt á síðasta kjörtímabili. Með samstilltu átaki allrar borgarstjórnar og borgarstarfsmanna tókst þrjú ár í röð, þrátt fyrir kreppu, að skila rekstri borgarinnar með góðum afgangi og það án nokkurra skatta- eða gjaldskrárhækkana. Sú niðurstaða er enn ein staðfesting þess að opinberir aðilar geta hagrætt og sparað þannig í eigin kerfi að hægt sé að standa með íbúum, kjörum þeirra og hag.



Á þessa staðreynd höfum við borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins ítrekað bent núverandi meirihluta og einnig að ekki væri þörf á þeim miklu gjaldskrár- og skattahækkunum sem nú hafa verið þvingaðar fram í Reykjavík. Það er mjög óábyrgt og vanhugsað að varpa slíkum byrðum yfir á borgarbúa. Fyrir barnafjölskyldur í borginni kalla þessar hækkanir meirihlutans að meðaltali á um 150.000 króna útgjaldaauka á hverju ári. Þessi háa tala bætist ofan á skattahækkanir ríkisstjórnarinnar, en samkvæmt nýlegri rannsókn OECD hefur skattbyrðin þyngst mest milli ára á Íslandi af öllum OECD-ríkjunum. Kjörnir fulltrúar þessa lands hafa þannig að undanförnu farið offari í að láta almenning bera byrðarnar og því miður hefur meirihluti borgarstjórnar ákveðið að fara sömu leið og auka álögur á borgarbúa, í stað þess að byggja á árangri og reynslu liðinna ára.



Ársreikningurinn 2010 staðfestir að sú leið meirihluta Besta flokksins og Samfylkingarinnar er ekki aðeins röng og ósanngjörn, heldur með öllu óþörf. Ég árétta því eina ferðina enn hvatningu mína til meirihlutans um að endurskoða þessar ákvarðanir og láta íbúa en ekki kerfið njóta þess fjárhagslega ávinnings og afgangs sem þessi síðasti ársreikningur fyrri meirihluta skilar.




Skoðun

Sjá meira


×