Viðskipti innlent

Rannsaka fjörutíu skattaskjólsmál

Ingibjörg Bára Sveinsdóttir skrifar
Í Lúxemborg Að mati skattrannsóknarstjóra eiga Íslendingar mikla fjármuni í Lúxemborg sem ekki eru taldir fram.Mynd/Úr safni
Í Lúxemborg Að mati skattrannsóknarstjóra eiga Íslendingar mikla fjármuni í Lúxemborg sem ekki eru taldir fram.Mynd/Úr safni
Embætti skattrannsóknarstjóra er með um fjörutíu svokölluð skattaskjólsmál til rannsóknar. Embættið hefur ekki komist yfir nema brot af þessum fjölda, að því er Bryndís Kristjánsdóttir skattrannsóknarstjóri greinir frá.

„Við höfum komist til botns í einhverjum en önnur eru þung þegar ekki hefur tekist að afla allra þeirra upplýsinga sem við teljum þörf á. Sum geta verið í rannsókn í á annað ár. Við vitum að það eru miklir fjármunir í skattaskjólunum, einkum í Lúxemborg," segir Bryndís, en þeim sem eiga eignir og fjármuni erlendis og eru skattskyldir hér á landi ber að telja allt fram.

Reynslan af upplýsingaskiptasamningum við önnur ríki hefur verið upp og ofan, að sögn Bryndísar. „Umhverfið er að opnast meira, en stundum fer mikið ferli í gang þar sem verið er að teygja lopann. Þetta gengur betur í sumum löndum en öðrum. Þessir samningar opna ekki allar dyr. Við erum til dæmis með upplýsingaskiptasamning við Jómfrúaeyjar en upplýsingarnar er ekki að finna þar þótt félag sé skráð þar til heimilis. Þar er kannski bara eitthvert box en félagið sjálft staðsett í Lúxemborg. Þessir samningar eru til bóta en fuglinn er ekki alltaf í hendi."

Íslendingar eru í einhverjum mæli farnir að yfirgefa skattaskjólin, að því er Skúli Eggert Þórðarson ríkisskattstjóri greinir frá.

„Það er alltaf eitthvað um það að á framtölum birtist upplýsingar um eignir og fjármuni í útlöndum. Við höfum hins vegar ekki athugað þetta kerfisbundið. Framtalsskilin eru almennt að batna og einnig hvað varðar upplýsingar frá útlöndum. Það væri auðvitað óskandi að menn gerðu þetta í meiri mæli," segir ríkisskattstjóri.

Hann tekur fram að mögulega séu vissir hvatar að baki þegar menn ákveði að telja allt fram. „Þeir sem hafa verið í skattaskjólum vita að við erum að fá upplýsingar. Margir þeirra eru auk þess í fjárhagslegum erfiðleikum. Þá þarf að grípa til allra fjármuna og það er ekki hægt að birtast með þá hér án þess að telja þá fram. Slíkt kallar á rannsókn skattrannsóknarstjóra."

Skúli segir að oft þurfi að greiða háar þóknanir til fjármálafyrirtækja og aðila sem haldi utan um gögn í skattaskjólum. „Þetta getur verið svo há þóknun að hún slagi jafnvel upp í skattasparnað. Það er alveg klárt mál að það er engin góðgerðastarfsemi hjá þessum stofnunum. Í einhverjum tilfellum hafa menn hagnast á þessu en það er ekki reglan."

Þegar menn koma úr felum bætist við endurákvörðunina 25 prósenta álag á alla skattstofna, að sögn Skúla. „Síðan er metið hvort viðkomandi mál þarf að fara til skattrannsóknarstjóra."






Fleiri fréttir

Sjá meira


×