Viðskipti innlent

Mun fleiri karlmenn hafa orðið gjaldþrota

Mikill meirihluti þeirra einstaklinga sem verða gjaldþrota er karlmenn, samkvæmt nýjum tölum sem dómstólaráð tók saman fyrir Umboðsmann skuldara.

Ríflega þrír af hverjum fjórum sem urðu gjaldþrota á síðasta ári eru karlmenn. Hlutfallið er svipað þegar meðaltal síðustu ellefu ára er skoðað.

„Þótt maður vilji ekki vera með alhæfingar eru karlmenn áhættusæknari en konur,“ segir Ásta Sigrún Helgadóttir, umboðsmaður skuldara. Hún segir frekari upplýsingar um ástæðu þessa skorta, en það sé verðugt rannsóknarefni.

 

Í samantekt dómsmálaráðs kemur fram að fjöldi gjaldþrota einstaklinga hefur á síðustu tveimur árum verið svipaður og á árunum 2006 og 2007. Alls voru 139 úrskurðaðir gjaldþrota á síðasta ári, og 112 árið áður. Það eru talsvert færri en á fyrri hluta síðasta áratugar. Árið 2000 voru 478 einstaklingar úrskurðaðir gjaldþrota, 298 ári síðar og 367 árið 2002.

 

Fækkun gjaldþrotaúrskurða einstaklinga bendir til þess að úrræði stjórnvalda séu farin að hafa áhrif, eða í það minnsta að fólk sé í biðstöðu og sé ekki úrskurðað gjaldþrota á meðan.

Ásta segir að þetta bendi eindregið til þess að möguleikinn á því að fá greiðsluaðlögun virki. „Gríðarlega margir hafa sótt um það úrræði, sem vissulega forðar fólki frá gjaldþroti,“ segir Ásta.

Fólk sem óskar eftir greiðsluaðlögun kemst í skjól frá kröfuhöfum og fer ekki í gjaldþrot. Þetta leiðir mögulega til þess að kröfuhafar óska ekki eftir gjaldþrotaskiptum til að byrja með, segir Ásta.

Stefán Ólafsson, félagsfræðiprófessor við Háskóla Íslands, segir stjórnvöld hafa gripið til ýmissa aðgerða. „Hvergi í Evrópu er meira gert fyrir húsnæðiseigendur í skuldavanda,“ segir Stefán.

Athygli vekur að karlmenn eru í miklum meirihluta þeirra sem verða gjaldþrota. Dómstólar úrskurða um gjaldþrot einstaklinga. Nærri helmingur gjaldþrotaúrskurða á búum einstaklinga frá árinu 2000 er frá Héraðsdómi Reykjavíkur, um 44 prósent. Ríflega fjórðungur er frá Héraðsdómi Reykjaness, samtals um 27 prósent. Mun færri úrskurðir koma frá öðrum dómstólum.brjann@frettabladid.is






Fleiri fréttir

Sjá meira


×