Skoðun

Veiðum meiri þorsk

Grétar Mar Jónsson skrifar
Ríkisstjórn sem á hátíðardögum eða þegar mikið liggur við kennir sig við jafnaðarmennsku og félagshyggju en lætur sig ekki varða að brotin séu mannréttindi á almenningi í landinu ætti að skammast sín. Ríkisstjórnin hefur enn ekki brugðist við áliti Mannréttindanefndar Sameinuðu þjóðanna frá 12. desember 2007.

Ríkistjórnin virðist ekki hafa kjark eða getu til að takast á við sérhagsmunaaðila sem virðast komast upp með að stjórna öllu því sem þeir vilja stjórna. Nú um stundir virðast sérhagsmunasamtök LÍÚ fá að ráða því hvort áfram verði leyfð mannréttindabrot hér á landi með vitund og vilja stjórnvalda. Það er kominn tími til að stoppa af LÍÚ-klíkuna innan SA sem hefur hingað til haft alltof mikil völd. Fólkið í landinu kaus ekki forystu SA og LÍÚ til að stjórna landinu, það kaus flokka sem lofuðu að standa vörð um velferðina og uppræta spillingu í íslensku samfélagi. Það kaus flokka sem lofuðu að breyta núverandi fiskveiðistjórnunarkerfi.

Það ríkir neyðarástand í þjóðfélaginu sem núverandi kvótakerfi átti stóran þátt í að skapa. Kerfið er einnig að koma í veg fyrir það að menn sem stunda vinnu í tengslum við sjávarútveg geti lifað mannsæmandi lífi. Kerfið kemur í veg fyrir atvinnuuppbyggingu í greininni sem full þörf er á í því atvinnuleysi sem nú er. Það kemur einnig í veg fyrir auknar þjóðartekjur sem við þurfum svo sannarlega á að halda til að geta haldið uppi ásættanlegri velferðarþjónustu.

Forsenda uppbyggingar hér á landi er að gerðar verði breytingar á núverandi kvótakerfi. Ekkert virðist vera að gerast í því og ætti almenningur í landinu að spyrja sig af hverju ríkisstjórn Samfylkingar og Vinstri grænna hafi enn ekki staðið við loforð sitt í stjórnarsáttmála að hefja fyrningu aflaheimilda í september 2009. Hvaða hagsmuni er ríkisstjórnin að verja, eru það sérhagsmunir fárra á kostnað velferðar heildarinnar?

Það vekur einnig furðu að frumvarp Jóns Bjarnasonar um aukinn kvóta sem leigja átti út frá ríkinu hafi verið stoppað af ríkisstjórninni í haust. Frumvarpið gerði ráð fyrir að bæta við kvóta sem yrði leigður út frá ríkinu. Maður spyr sig hvort frumvarpið hafi stoppað í ríkisstjórn vegna þess að Steingrímur sem er og hefur verið kvótasinni og Samfylkingar-ráðherrarnir hafi ekki þorað að styggja LÍÚ-klíkuna.

Það er full ástæða til að auka við kvótann og nota aukninguna til að brjóta upp kvótakerfið. Ástandið á fiskislóðum hringinn í kringum landið er með ólíkindum og þar er allt fullt af þroski. Hafró hefur mælt meiri þorsk í togararallinu í ár en undanfarin ár þrátt fyrir að litlu leyti sé togað á grunnslóð og ekkert sé togað inn á fjörðum eða út að 10 mílum frá landi, víðast hvar.

Það eru margir möguleikar sem þjóðin á til að komast upp úr kreppunni og eitt af því er að auka kvótann. Það kostar ekkert því nú þegar er til skipafloti og fólk með þekkingu og vilja til að nýta auðlindir þjóðarinnar með skynsamlegum hætti, landi og þjóð til góðs.




Skoðun

Sjá meira


×