Skoðun

Nýtt vor í tónlist

Guðni Tómasson skrifar
Það vorar í íslensku tónlistarlífi. Tónlistar- og ráðstefnuhúsið Harpa, við Austurhöfnina í Reykjavík, boðar nýtt upphaf fyrir tónlistarfólk og tónlistaráhugamenn á Íslandi. Miklir möguleikar skapast í flutningi á alls kyns tónlist í húsi sem stenst allar væntingar sem gerðar eru til tónlistarhúsa í dag. Í kvöld rennur upp merkileg stund í menningu landsmanna þegar Sinfóníuhljómsveit Íslands, síkvikur unglingur á sjötugsaldri, heldur sína fyrstu tónleika í húsinu. Með flutningi sveitarinnar í Hörpu verða henni allir vegir færir. Viðbrigðin eru mikil fyrir hljóðfæraleikarana og það sama munu tónleikagestir upplifa, sem margir hverjir þekkja til sveitarinnar og hafa stutt hana í áraraðir. Draumurinn um tónlistarhús í Reykjavík er kominn til ára sinna en verður nú skyndilega að veruleika. Upplifunin verður ný og fyrir þá sem ekki hafa enn reynt tónleika hljómsveitarinnar fer nú að verða rétti tíminn til að prófa, því að við þessar aðstæður á að leika tónlist.

Húsið okkarHarpa þarf að vera hús allra landsmanna enda hefur íslenskt tónlistarlíf átt drjúgan þátt í að viðhalda og byggja upp sjálfsmynd þjóðarinnar. Í Hörpu mun fjölbreytt tónlist hljóma og víst er af nógu að taka þegar horft er yfir sviðið. Framboð á tónlist og menningu í höfuðborginni er slíkt að stærri borgir væru fullsæmdar af. Rétt er að hvetja alla sem unna tónlist að finna sér eitthvað við hæfi í dagskrá Hörpu, en hafir þú ekki prófað lifandi flutning á sinfónískri tónlist, ágæti lesandi, þá skaltu fylgjast með starfi Sinfóníuhljómsveitar Íslands á næstu misserum. Krafturinn, hljómurinn og óteljandi litir tónlistarinnar gætu komið þér á óvart, því að í alvöru tónleikasal eins og stóra salnum í Hörpu, Eldborg, finnur maður fyrir tónlistinni með fleiri skynfærum en heyrninni einni. Maður þarf ekkert að vita, bara vera tilbúinn að upplifa. Fólkið á sviðinu veit allt sem til þarf. Það er stór dagur í lífi þeirra og okkar allra sem njótum menningar og lista í þessu landi. Við megum vera stolt af Sinfóníuhljómsveit Íslands og Hörpu.




Skoðun

Sjá meira


×