Skoðun

Hafa skal það sem sannara reynist

Björn Halldórsson skrifar
Nýlega sendu samtökin Vel-bú nokkrum fjölmiðlum tilskrif sem varða aðbúnað og meðferð loðdýra á Íslandi. Vegna alvarlegra rangfærslna í greininni vill Samband íslenskra loðdýrabænda taka eftirfarandi fram:

Loðdýrabændur eru ætíð tilbúnir að ræða reglur um aðbúnað dýra þeirra og velferð dýranna. Það er hins vegar að okkar mati málefninu ekki til framdráttar þegar menn leggja upp í vegferð með röngum upplýsingum, hvað þá engum upplýsingum. Svo er því miður með tilskrif Vel-bús. Þaðan hefur enginn haft samband við samtök okkar og þannig reynt að kynna sér málið, og sjá við hvaða aðstæður dýrin lifa hér á landi. Því verður Samband íslenskra loðdýrabænda að óska eftir birtingu á eftirfarandi leiðréttingum.

1. Fullyrðing um að loðdýrarækt hafi dregist saman í mörgum löndum Evrópu er röng. Því til sönnunar má benda á að á s.l. 15 árum hefur heimsframleiðsla og þar með eftirspurn og sala grávöru nærfellt tvöfaldast. Meginhluta þessarar aukningar má rekja til landa Evrópu. Að sönnu var framleiðsla lögð niður í Bretlandi en sölutölur á sl. ári yfir sölu pelsvara í því sama landi sýna að aldrei í sögunni hefur eftirspurn verið meiri þar.

2. Fullyrðing um að minkar á Íslandi séu haldnir í mjög litlum búrum stenst einungis ef menn sjálfir – óháð rannsóknarniðurstöðum – gefa sér hvað er stórt og hvað er lítið. Þar sýnist sjálfsagt sitt hverjum en bændur hér á landi fara eftir þeirri reglugerð sem hér er í gildi og var sett árið 2007. Að gerð þeirrar reglugerðar komu a.m.k. 3 dýralæknar og hún var að sjálfsögðu yfirfarin af lögfræðingum Landbúnaðarráðuneytisins áður en hún var gefin út og ætti þar með að vera öruggt að hún fari ekki í bága við lög.

3. Það er rangt sem fram kemur hjá Vel-búi að minkar hér á landi séu oftast aflífaðir með útblæstri frá vélum. Það gera nokkrir en flestir nota sérstaklega útbúið gas. Báðar aðferðirnar eru samkvæmt Evrópustaðli. Vel–búi láðist hins vegar að geta þess hvernig vélarnar eru útbúnar, m.t.t. kælingar á lofti og hreinsunar, til verksins. Fullyrðing um að bannað sé að aflífa dýr með útblæstri véla í Danmörku er hins vegar röng. Það er leyfilegt enda í fullu samræmi við leiðbeinandi reglur frá Evrópusambandinu um aflífun dýra.

4. Fullyrðingin um að loðdýrarækt sé aflögð á Ítalíu er röng. Framleiðsla minkaskinna á Ítalíu er meiri en á Íslandi og fulltrúar samtaka loðdýrabænda þar í landi fullyrða að þar séu engin meiriháttar vandamál, og nokkur framleiðsluaukning hefur orðið þar allra síðustu ár.

Hverjir eru þeir mörgu sem bent hafa á að erlendir aðilar hafi áhuga á að hefja framleiðslu minkaskinna á Íslandi vegna þess að hér séu reglur um aðbúnað ekki eins strangar og í öðrum löndum? Og hver eru þessi nokkur lönd þar sem framleiðslan hefur lagst af með auknum kröfum? Það er afar einföld leið til að búa til „sannleika“ með því að hamra stöðugt á sömu hlutunum. Þetta tókst ákveðnum aðilum í Evrópu á síðari hluta þriðja áratugarins og fyrrihluta þess fjórða. Slíkar fullyrðingar voru engum til bóta og til lítils sóma.




Skoðun

Sjá meira


×