Skoðun

Konu í Skálholt!

Hjalti Hugason skrifar
Kjör til embættis vígslubiskups í Skálholti stendur nú yfir. Embætti vígslubiskupa eru um margt ómótuð. Illu heilli reyndist ekki grundvöllur fyrir stefnumótandi umræðu í aðdraganda kjörsins. Því er mikilvægt að kosningin sjálf marki stefnu. Það verður best gert með því að kjósa konu. Kona var fyrst vígð til prests í þjóðkirkjunni fyrir hálfum fjórða áratug. Nú eru konur nærri þriðjungur starfandi presta. Það er því eðlilegt skref í jafnréttisátt að kjósa nú konu til að gegna biskupsembætti. Þjóðkirkjan hefur mótað sér metnaðarfulla jafnréttisstefnu. Meðal markmiða hennar er „að stuðla að jafnri stöðu kvenna og karla í stjórnunar- og áhrifastöðum“. Vígslubiskupskjörið veitir kærkomið tækifæri til að nálgast þetta markmið. Einhverjir munu segja að torvelt sé að leggja jafnréttisáætlun til grundvallar við val á vígslubiskupi þar sem um kosningu er að ræða. Það er ekki rétt. Kjör vígslubiskups er ekki almenn kosning heldur tekur lokaður hópur kjörmanna sem allir gegna leiðtoga- og trúnaðarstörfum í kirkjunni þátt í kjörinu. Vel er hægt að gera þá kröfu til hvers þess sem er kallaður til slíks hlutverks í þjóðkirkjunni að hann eða hún leggi markaða stefnu kirkjunnar til grundvallar við ákvörðun sína – jafnvel þótt hún sé sett fram í formi skriflegrar kosningar. Sé þetta ekki mögulegt virðist jafnréttisstefna þjóðkirkjunnar vera skrautfjöður sem ætti að fella úr gildi. Þjóðkirkjan á nú við margháttaðan vanda að etja sem að sumu leyti má rekja til veikrar stöðu kvenna í kirkjunni. Þá eru athugasemdir gerðar við stöðu hennar sem þjóðkirkju. Við þær aðstæður skiptir miklu að þjóðkirkjan tengist þjóðinni sem sterkustum böndum. Það verður best gert með því að sem flestir, konur og karlar, finni sig heima innan veggja hennar. Þess vegna er það grundvallaratriði að tryggja að bæði konur og karlar gegni helstu forystuhlutverkum í þjóðkirkjunni. @Megin-Ol Idag 8,3p :Því er krafa tímans: Konu í Skálholt!

Tengdar fréttir

Að semja eða svíkja

Erlendir lánveitendur íslenskra banka og fyrirtækja hafa nú þegar tapað milli 7 og 10 þúsund milljörðum króna á því að treysta Íslendingum fyrir fjármunum.




Skoðun

Sjá meira


×