Innlent

Sameining áætluð hjá þrjátíu leikskólum

Talsverðar sameiningar verða í yfirstjórn leikskóla borgarinnar samkvæmt tillögu starfshóps.Fréttablaðið/GVA
Talsverðar sameiningar verða í yfirstjórn leikskóla borgarinnar samkvæmt tillögu starfshóps.Fréttablaðið/GVA
Samkvæmt tillögum sem lagðar verða fram í borgarráði á morgun er gert ráð fyrir að þrjátíu leikskólar verði sameinaðir í fjórtán og stjórnendum þeirra, leikskólastjórum og aðstoðarleikstjórum, sagt upp en sumir endurráðnir í yfirmannastöðurnar að nýju. Hinum verður boðið að starfa áfram með aðrar starfsskyldur og lægri laun.

Einnig er gert ráð fyrir að frá næsta hausti verði frístundaheimili, sem rekin hafa verið í grunnskólum, sett undir eina stjórn í skólunum sjálfum en verði ekki stýrt annars staðar úr borgarkerfinu eins og nú er. Þá sameinast sex grunnskólar um þrjár yfirstjórnir. Þetta á við um Álftamýrar- og Hvassaleitisskóla, Borga- og Engjaskóla og Korpu- og Víkurskóla. Í tveimur tilvikum á að sameina yfirstjórnir grunnskóla og leikskóla.

Þessar tillögur „starfshóps um greiningu tækifæra í lærdómsumhverfi barna í Reykjavíkur" voru kynntar í menntaráði borgarinnar í þriðjudag. Borgarráð mun ákveða á morgun hvort tillagan verður send til umsagnar út í hverfin og skólana.

Samkvæmt upplýsingum Fréttablaðsins er samstaða innan borgarstjórnar með suma þætti þessarar áætlunar en ekki um aðra. Helst óttast menn að við breytinguna muni sumir af reyndustu starfskröftum leikskólanna hverfa á braut á sama tíma og mjög stór árgangur leikskólabarna bíður þess að hefja skólagöngu sína.- gar



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×