Skoðun

Allir þurfa húsnæði

Elín Björg Jónsdóttir skrifar
Fréttablaðið greindi frá því á forsíðu sinni á þriðjudag að samráðshópur velferðarráðuneytisins vildi efla leigumarkað í landinu með því að setja íbúðir í eigu lífeyrissjóða, banka og annarra lánastofnana á leigumarkað. Þetta eru góðar fréttir og í fullkomnu samræmi við áherslur sem BSRB hefur lagt í málinu.

 

BSRB hefur á undanförnum mánuðum kynnt hugmyndir um varanlegan leigumarkað. Við höfum gengið á fund forsætis-, fjármála- og velferðarráðherra, hitt stjórnendur Íbúðalánasjóðs og fjölmarga fleiri. Grunnhugmyndin að baki tillögum BSRB er sú staðreynd að allir þurfa húsnæði, óháð tekjum eða félagslegum aðstæðum.

 

Leigumarkaður á Íslandi hefur ætíð verið vanþroskaður. Hann hefur verið viðkomustaður fólks á leiði í eigið húsnæði og það hefur orðið til þess að leiguverð er langt fyrir ofan það sem eðlilegt getur talist og öryggi leigjanda er lítið.

 

Nú er hins vegar lag. Við höfum viljað bera okkur saman við hin Norðurlöndin í ýmsu, enda ríkir þar samfélagsgerð sem ástæða er til að miða sig við. Þar er það líka alvöru val fyrir fólk að búa í leiguhúsnæði, frekar en að kaupa sér sitt eigið. Það á ekki að vera náttúrulögmál að fólk fjárfesti í steinsteypu.

 

BSRB hefur mælt með almennu leigukerfi að dönskum sið, þar sem leiguíbúðir eru í eigu leigufélaga eða leigufyrirtækja. Nú er nægt framboð á íbúðum í eigu Íbúðalánasjóðs eða annarra lánastofnana og það er gleðiefni að hugað sé að því að koma þeim á leigumarkað – og veita þannig fjölda fólks þak yfir höfuðið.

 

Mikilvægt er að hugað sé að húsaleigunni. Í Danmörku er reglan sú að hún má einungis fjármagna afborganir lána og viðhaldskostnað leiguhúsnæðisins. Þar ríkir íbúalýðræði sem þýðir að íbúarnir ákveða sjálfir hvaða viðhald eða betrumbætur skal farið í hverju sinni. Húsaleiga hækkar því einungis í takt við það.

 

Allir þurfa þak yfir höfuðið, um það þarf ekki að velkjast. Nú er tækifæri á því að byggja upp leigukerfi að norrænum sið og veita öllum þau mannréttindi að eiga sér samastað.




Skoðun

Sjá meira


×