Skoðun

Fjölbreytileiki matar í ESB

Kristján E. Guðmundsson skrifar
Þriðjudaginn 15. þ.m. var mynduð í Þjóðmenningarhúsinu „Já-hreyfing“ þeirra samtaka sem aðhyllast inngöngu Íslands í ESB. Daginn eftir birti hún heilsíðuauglýsingu í blöðum þar sem taldir voru upp nokkrir kostir þess fyrir íslenska þjóð að ganga í ESB. Ein setning auglýsingarinnar var „Við fáum ódýrari og fjölbreyttari mat“.

 

Auglýsingin varð hins vegar til þess að aðstoðarmaður menntamálaráðherra, Elías Jón Guðjónsson, sá ástæðu til spyrja já-hreyfinguna hvaða matvælategundir það væru sem myndu auðga íslenska matarmenningu við ESB-aðild. Og hann vildi að fleiri beindu spurningunni til þessarar hreyfingar. Hann segist vera mikill sælkeri og vildi því vita hvað myndi auka sællífi hans við ESB-aðild. Þessari ágætu spurningu fylgdi að vísu aulaleg uppnefning sem svo gjarnan vill loða við málflutning ESB-andstæðinga og varla samrýmist stöðu mannsins.

 

Nú vill svo til að ég deili því með Elíasi að vera mikill sælkeri og hef haft það fyrir sið er ég heimsæki önnur lönd að fara í stórmarkaði og kynna mér vöruúrval og ekki hvað síst verðlag. Það vill einnig svo vel til að ég er nú þessa mánuðina í námsleyfi og staddur við nám í Berlín. Eins og Elías kannski veit er ESB einn markaður fyrir landbúnaðarafurðir og því er allstaðar í sambandinu hægt að fá landbúnaðarvörur úr öllum afkimum þess. Hér í stórmörkuðum er því hægt að fá skinku frá Spáni eða Ítalíu, óteljandi tegundir osta t.d. frá Frakklandi og svo gæti ég lengi talið, fjölbreytileikinn er mikill, í alls konar pakkningum og tilverkað með ýmsum hætti.

 

Og verðið maður! Franskur „Le Coq de France“ hvítostur, 200 gr. kostar eina evru!

Hér er hins vegar ekki hægt að fá íslenska osta, hangikjöt eða súrsaða hrútspunga. Hvers vegna skyldi það nú vera? Ekki veit ég hvort Elías hefur komið til útlanda eða farið í stórmarkaði erlendra stórborga. Hafi hann gert það hljómar þessi spurning hans aulaleg. Ísland er ekki í dag aðili að hinum stóra evrópska markaði hvað varðar landbúnaðarafurðir. Til að opna fyrir möguleika á sölu vissra íslenskralandbúnaðarafurða í Evrópu (og þá eingöngu óunninna afurða, s.s. lambakjöt í heilum skrokkum) hefur verið opnað fyrir innflutning á vissum evrópskum landbúnaðarafurðum til Íslands í mjög takmörkuðu magni og sem síðan eru settir á ofurtollar svo sala þeirra er óraunveruleg. Það hlýtur að vera nokkuð augljóst að við inngöngu Íslands í ESB mun fjölbreytileiki matar aukast verulega, frá öllum kimum sambandsins.

 

Ef sælkerinn Elías á leið um Berlin á næstu mánuðum skal ég með ánægju sýna honum fjölbreytileika matar í ESB. Og svo gerum við verðkönnun.

Með kveðju frá ESB-nötter í Berlín.




Skoðun

Skoðun

Ert þú drusla?

Katrín Sigríður J. Steingrímsdóttir,Elísa Rún Svansdóttir,Lilja Íris Long Birnudóttir,Lísa Margrét Gunnarsdóttir,Margrét Baldursdóttir,Silja Höllu Egilsdóttir skrifar

Sjá meira


×