Skoðun

Stöldrum við í orkumálum!

Ólafur Arnalds skrifar
Nýverið fréttist að bresk yfirvöld hafa rætt möguleika á að kaupa á raforku frá Íslandi, sem leidd yrði með sæstreng til Bretlands. Þessi sama hugmynd kemur einnig af og til upp á yfirborðið í umræðu á Íslandi. En hafa Íslendingar þessa orku að bjóða? Skiptir hún einhverju máli fyrir orkubúskap Bretlandseyja? Hver yrðu áhrifin hérlendis? Er ekki rétt að staldra aðeins við?



Allir okkar hagkvæmustu virkjanakostir eru þegar nýttir til stóriðju; því má draga í efa að mikil orka fyrir breska neytendur sé til á Íslandi. Sem dæmi má nefna að hægt er að færa gild rök fyrir því að sárafáir kostir séu fyrir hendi til virkjunar vatnsfalla af sömu stærðargráðu og virkjanir í efri hluta vatnasviðs Þjórsár. Eru háhitasvæðin í Kerlingarfjöllum og Torfajökli mögulegir virkjanakostir í þessu samhengi? Vitaskuld ekki. Til þess eru aðrir hagsmunir allt of ríkir. Er orka til fyrir hendi til að selja til Bretlandseyja? Líklega er svarið mjög einfalt: nei.

Sú orka sem unnt er að ganga að á Íslandi, jafnvel með því að ganga mjög nærri orkuauðlindum Íslands skiptir litlu sem engu máli fyrir Bretlandsmarkað. En áhrifin yrðu gríðarleg á náttúru Íslands og líklegt er að orkuverð til íslenskra notenda myndi hækka.



Það er rétt að hafa í huga að óspillt náttúra Íslands er öflug tekjulind fyrir þjóðina. Tekjur af erlendum ferðamönnum ná hugsanlega 200 milljörðum árið 2011. Heildartekjurnar nema auðveldlega 3000 milljörðum næstu 10 árin samtals. Innviðir ferðaþjónustu og aðbúnaður á ferðamannastöðum þarfnast uppbyggingar; náttúruperlur aðhlynningar. Á þessu sviði eru mikil tækifæri fyrir hinar dreifðu byggðir landsins; tækifæri sem þarf að rækta. Það eru víðar arðbærar fjárfestingar en í orkugeiranum.



Mjög gengur á lífrænan orkuforða jarðar á borð við olíu, kol og gas, en jafnframt vex orkuþörfin örum skrefum. Orkuverð hækkar ört á heimsmarkaði og með þetta í huga þarf að huga að framtíðinni á Íslandi. Við þurfum orku fyrir samgöngutæki framtíðarinnar, á sjó og á landi og til fjölbreyttrar atvinnustarfsemi. Íslendingar – stöldrum við í orkumálum! Það er ekki síst hagur orkusölufyrirtækja til að tryggja fjölbreytta og arðsama nýtingu þverrandi orkulinda og það er sannarlega hagur Íslendinga framtíðarinnar.




Skoðun

Sjá meira


×