Skoðun

Ekki einsleitur hópur

Guðrún Pálsdóttir skrifar

Steinunn Stefánsdóttir, aðstoðarritstjóri Fréttablaðsins, gerði þjónustu Kópavogsbæjar við fatlað fólk að umtalsefni í leiðara í vikunni og hélt því fram að undirrituð liti á fatlaða sem einn og einsleitan hóp sem öllum bæri að þjóna með sama hætti. Rökin fyrir þeirri fullyrðingu voru þau að Kópavogsbær byði blindu fólki ekki akstursþjónustu með leigubílum.

Kópavogsbær veitir fötluðu fólki margvíslega þjónustu í samræmi við ólíkar þarfir hvers og eins. Ferðaþjónusta fatlaðra er hins vegar ekki einstaklingsþjónusta heldur sértæk almenn þjónusta. Fatlað fólk sem ekki getur nýtt sér almenningssamgöngur getur, að uppfylltum ákveðnum skilyrðum, fengið sérstaka akstursþjónustu sem er ígildi þess að ferðast með strætó. Það þýðir að lögblindir geta, eins og annað fólk með fötlun, nýtt sér ferðaþjónustu fatlaðra, til að sækja vinnu, skóla eða hæfingu. Með því uppfyllir bærinn sínar lögbundnu skyldur.

Það var í ljósi ofangreinds sem bærinn hafnaði ósk Blindrafélagsins um að lögblindir fengju ferðaþjónustu umfram annað fólk með fötlun. Bærinn telur með öðrum orðum að ekki eigi að mismuna fólki eftir fötlun. Þetta þýðir þó ekki að litið sé á hóp fatlaðra sem einn og einsleitan hóp hér í Kópavogi, eins og aðstoðarritstjórinn heldur fram, enda veitir bærinn fötluðum margvíslega einstaklingsmiðaða þjónustu, eins og áður sagði.

Í Kópavogi geta þeir sem nýta sér ferðaþjónustu fatlaðra fengið allt að 68 ferðir á mánuði. Kvöldferðir má panta samdægurs. Til samanburðar er Hafnarfjörður með allt að 54 ferðir á mánuði en með samningi Hafnarfjarðarbæjar við Blindrafélagið geta blindir farið að hámarki 8 ferðir á mánuði með leigubíl.

Kópavogur tók yfir þjónustu við fatlað fólk af ríkinu nú um áramótin og hefur þegar verið lögð fram til umræðu í bæjarstjórn metnaðarfull stefna til næstu ára. Við ætlum okkur að skara fram úr í þessum málaflokki. Einn liður í því er að endurskoða ferðaþjónustu fatlaðra og bjóða hana út með það að markmiði að bæta þjónustuna enn frekar.






Skoðun

Sjá meira


×