Skoðun

Reynisnes austan Eyjafjarðar

Valgarður Egilsson skrifar

Helgi magri nam land milli Sigluness og Reynisness, segir Landnámabók.

Reynisnes er þá Gjögurtá austan Eyjafjarðar yst. Heitið Reynisnes var notað öldum saman (reynir finnst í Fossdal innan við Gjögurinn).

Þeir Þingeyingar koma sér ekki saman um heiti á skagann austan Eyjafjarðar.

Ein hugmyndin er Reynisnes. Í heiðnum sið var helgi á reyninum, hann kallaður björg Þórs, segir Snorri. Helgi magri var írskur í móðurætt og að uppeldi, sagður blandinn í trú sinni, kristinn en treysti á Þór í hafi.

Helgi og kona hans Þórunn Ketilsdóttir voru fyrsta vetur sinn á Hámundarstöðum.

Helgi gengur upp á fjall til að sjá yfir héraðið. Það kallar hann Sólarfjall. Ekki er vitað nú hvert það fjall var.

Lítt sér af Kötlufjalli inn til Eyjafjarðarhéraðs. Yfirsýn yfir hérað er best af Kaldbak, staða þess fjalls veldur því; og hæð fjallsins því, að þar kemur sól upp snemma. Sólarfjall er þá frekar Kaldbakur. Líklega felur heitið Sólarfjall í sér trúarlega skírskotun.

Sögn er að Helgi léti drösla galdrakerlingu upp á Kötlufjall og grýta þar í hel, það gerir maður ekki á neinu sólarfjalli.

Helgi og Þórunn hyrna eru einn vetur á Bíldsá austan fjarðarbotns. Þá ákveða þau að setjast að í Kristnesi, þurfa þá að fara vestur yfir frjósama óshólma Eyjafjarðarár.

Á leiðinni, í hólmunum, verður Þórunn léttari. Fædd er mær, nefnd Hólmasól, Þorbjörg hólmasól.

Óshólmar fljótanna bera í sér frjósemi jarðar. Þess vegna er barnið borið þar, sagan höfð þannig; tvöföld tenging við frjósemi. Það glittir í frjósemisdýrkun, sem á margt sameiginlegt með sólardýrkun. Afkomendur þeirra gömlu hjónanna, Helga og Þórunnar, höfðu átrúnað á frjósemisgoðinu, Frey. Á sólguðinn treysti Þorkell máni, Reykvíkingurinn, venslaður Þórunni.

Gömul kona bjó í Ólafsfirði, alin upp á Látraströnd, og þurfti hún að leiðrétta krakkana á Ólafsfirði þegar þeir töluðu um Látrastrandarfjöll: "Þetta heita Sólarfjöll" sagði hún.

Við landnám um Eyjafjörð gerði Helgi elda við ósa. Enn koma ósar fljótanna við sögu. Keltar voru víðförlir, höfðu kynni af heimspeki og heimssýn fjarlægustu þjóða. Vel fer saman kristni og trú á öfl náttúrunnar. Frásagan af landnámi Helga og Þórunnar um Eyjafjarðarhérað er sérstæð, þó eru tengsl við landnám í Vatnsdal.

Ég styð þá hugmynd að skaginn milli Eyjafjarðar og Skjálfanda verði nefndur Reynisnes.






Skoðun

Sjá meira


×