Skoðun

Góði Besti, passaðu skólana

Hildur Björg Hafstein skrifar

Enn einu sinni á að skera niður í grunnskólum borgarinnar. Segja má með sanni að foreldrar grunnskólabarna hafa verið ansi skilningsríkir á niðurskurð sl. tveggja ára. Ekki heyrðist mikið þegar viðbótarkennslustund 1.-4. bekkjar var tekin burt, gæsla í frímínútum snarminnkaði, forfallakennslu var ekki sinnt. En ekki heyrðist stuna í foreldrum því allir höfðu skilning á að nú þyrfti að spara. En nú sjá foreldrar, og allir sem vilja, að ekki verður gengið lengra í niðurskurði i skólum.

Þar sem borgarfulltrúar Besta flokksins hafa oft borið við reynsluleysi þá er rétt að útskýra nokkuð fyrir þeim. Formaður menntaráðs ætti að geta útskýrt þetta líka: Nemendur hafa ekki aðrar leiðir til að bæta sér það sem þeir missa þessi niðurskurðarár. Ef strætóferðum er fækkað þá blasir við að strætófarþegar finna aðrar leiðir til að komast leiðar sinnar. Þetta geta nemendur ekki. Námið þeirra næstu tvö ár verður ekki endurtekið eða farið eitthvert annað í skóla. Þetta er mikilvægt að hafa í huga.

Annað er mikilvægt að hugsa líka. Ef gæsla er felld niður í frímínútum og matsal þar sem hætta er á einelti er þá ekki líklegt að einelti og ágreiningur komi til kasta kennarans í kennslustund og af því leiðir að tími til náms minnkar enn frekar? Og ég tala nú ekki um eineltið sem hætta er á að magnist til muna.

Niðurskurðurinn hjá grunnskólum nú er sagður tímabundinn í tvö ár. Í eyrum stjórnmálamanna er það eftir vill stutt en ég veit að tvö ár af 10 árum í grunnskóla er þó nokkuð. 20% segi ég og skrifa.

Það þarf ekki að leita langt að peningahítum til að sækja pening í stað þess að sækja þá til skólanna. Yfirbygging grunnskólanna er nokkuð stór. Mætti t.d. stöðva nokkur verkefni á menntasviði tímabundið í tvö ár? Sleppa ráðstefnum með erlendum fyrirlesurum, tímabundið í tvö ár? Er ekki hægt að gera allt áður en sælst er í tóma buddu skólanna?

Ég skora á alla borgarfulltrúa að taka undir með foreldrum og skólafólki í Reykjavík og segja: Hingað og ekki lengra.

Grunnskólar Reykjavíkur hafa sannarlega staðið sig vel í hagræðingu og niðurskurði. Mér finnst það í raun mesta furða hversu vel þeir hafa staðið sig. Er ekki rétt að leyfa þeim að starfa óbreytt í nokkur ár án frekari niðurskurðar eða a.m.k setja stefnu um hvernig skóla við viljum en ekki bjóða foreldrum og nemendum árlega upp á bútasaumsniðurskurð sem grefur undan námi krakkanna. Þetta myndi múmínmamma aldrei gera. Meira að segja ekki Morrinn.






Skoðun

Skoðun

Ert þú drusla?

Katrín Sigríður J. Steingrímsdóttir,Elísa Rún Svansdóttir,Lilja Íris Long Birnudóttir,Lísa Margrét Gunnarsdóttir,Margrét Baldursdóttir,Silja Höllu Egilsdóttir skrifar

Sjá meira


×