Skoðun

Sameining stofnana Velferðarráðuneytis

Elsa B. Friðfinnsdóttir skrifar

Fyrir Alþingi liggur nú frumvarp til laga um sameiningu Landlæknisembættisins og Lýðheilsustöðvar. Til stóð að umrædd sameining gengi í gegn um áramótin en henni hefur nú verið frestað að minnsta kosti til 1. mars. Full ástæða er til að staldra nú við, leggja áform um umrædda sameiningu á hilluna og huga þess í stað að víðtækari og árangursríkari sameiningu stofnana Velferðarráðuneytisins.

Undir hið nýja ráðuneyti falla nokkrar nefndir og eftirlitsstofnanir um heilbrigðisþjónustu, ásamt stofnunum og ráðum sem sinna forvörnum og lýðheilsu. Sameiningu Landlæknisembættis og Lýðheilsustöðvar er ætlað að styrkja og efla starf þeirra, og leiða til hagræðingar í rekstri. Engin úttekt liggur þó fyrir um þessi áætluðu fjárhagslegu samlegðaráhrif sameiningarinnar. En því er ekki lagt til að ganga lengra í sameiningarátt stofnana sem vinna á sama sviði? Betri nýting mannaflans, aukin samvinna og hagræðing í rekstri yrði augljóslega enn meiri með víðtækari sameiningu stofnana, ráða og nefnda.

Í umsögn sinni um frumvarpið leggur stjórn Fíh til að það verði dregið til baka en þess í stað unnið að víðtækari sameiningu stofnana á sviði forvarna og lýðheilsumála, ásamt eftirliti með heilbrigðisþjónustu. Stjórnin leggur til að unnið verði að sameiningu þeirra stofnana sem nú fjalla um þessi mál, í eina stofnun sem beri heitið Heilbrigðisstofa. Heilbrigðisstofa skiptist í þrjú deildaskipt svið: (1) Eftirlit, en undir það falla Landlæknir, Lyfjastofnun og Geislavarnir; (2) Forvarnir/lýðheilsa, en undir það falla Lýðheilsustöð og Heyrnar- og talmeinastöð; og (3) Nefndir, en því sviði tilheyra Lyfjagreiðslunefnd og Vísindasiðanefnd.

Stjórn Fíh leggur til að forstjóri veiti Heilbrigðisstofu forstöðu og að hann skuli vera menntaður á heilbrigðissviði og hafa menntun og/eða reynslu af stjórnun. Hverri deild stýri deildarstjóri og þannig geti hið 250 ára gamla heiti „landlæknir" lifað áfram, en tilfinningatengsl margra við það starfsheiti virðast ráðandi afl í framlögðu frumvarpi. Stjórn Fíh fullyrðir að með stofnun og starfsrækslu slíkrar Heilbrigðisstofu fengist mikill faglegur ávinningur í formi samvinnu sérfræðinga og samþættingu verkefna. Auk þess næðist fram verulegur fjárhagslegur ávinningur með fækkun forstjóra og skilvirkari dreifingu verkefna.




Skoðun

Sjá meira


×