Skoðun

Af villigötum til betri vegar

Ómar Freyr Sigurbjörnsson skrifar
Nýlega birti Gunnlaugur H. Jónsson grein í Fréttablaðinu undir fyrirsögninni „Villuljós í orkumálum". Þar fjallar greinarhöfundur um fyrirætlanir Carbon Recycling International (CRI) um að framleiða vistvænt eldsneyti úr koltvísýringsútblæstri, vatni og endurnýjanlegri raforku. Í greininni gætir töluverðs misskilnings á veigamiklum atriðum. Lendir greinarhöfundur því skiljanlega á villigötum þegar hann gefur sér villandi forsendur og dregur af þeim rangar ályktanir.

Sú ákvörðun CRI að fjárfesta í nýrri verksmiðju í miðri efnahagslægð er að sjálfsögðu ekki tekin að óathuguðu máli. Fjórum árum hefur verið varið í tækniþróun, markaðsrannsóknir og að treysta fjárhagslegan grundvöll verkefnisins. Allt stefnir þetta að því að bjóða verðmæta vöru sem hentar markaðsaðstæðum eins og þær birtast okkur í dag og eins og spáð er að þær verði í framtíðinni. Niðurstaðan er sú að það er hagkvæmt að framleiða vistvænt metanól á Íslandi og að með því verður stigið mikilvægt skref í sjálfbærri nýtingu auðlinda til hagsbótar fyrir íslenskt umhverfi og efnahag.

Greinarhöfundur bendir réttilega á að meirihluti rafmagns í heiminum er framleiddur með brennslu jarðefna. Flestum hrýs væntanlega hugur við þessari staðreynd, þar sem ljóst er að slíkt getur ekki gengið um aldur og ævi. Jarðefnaeldsneyti er ekki endurnýjanlegt og þegar er farið að bera á hækkandi olíuverði. Auk þessa fylgir nýtingu þess mikill útblástur gróðurhúsalofttegunda, hætta á alvarlegum mengunarslysum og aukinn ófriður og óstöðugleiki í heiminum.

Flestar þjóðir sem háðar eru innfluttu jarðefnaeldsneyti vinna að því að draga úr notkun og auka framleiðslu á vistvænni kostum. Íslendingar eru eftirbátar annarra hvað þetta varðar. Nær öll orka sem notuð er í samgöngum á Íslandi er innflutt og ekki vistvæn. Samgöngukerfi landsins er algjörlega háð innflutningi olíu sem er goldin dýru verði. Á komandi árum verða Íslendingar að mæta alþjóðlegum skuldbindingum um að draga úr losun gróðurhúsaloftegunda. Tækni CRI mun stuðla að því að mæta hluta af þessum þörfum.

Greinarhöfundur virðist hafa af því áhyggjur að CRI hyggist flytja út metanól sem brennt verði til raforkuframleiðslu eða notað í efnaiðnaði í samkeppni við metanól unnið úr jarðefnaeldsneyti. Þetta er að sjálfsögðu rangt og hefði greinarhöfundur getað sparað sér útreikninga með því einfaldlega að leita sér frekari upplýsinga. Vistvænt metanól sem framleitt verður af CRI er ætlað til íblöndunar í bensín en nýtist einnig við framleiðslu lífdísils.

Í raun má segja að framleiðsla og notkun metanóls með þessum hætti sé eina raunhæfa leiðin til að nýta innlenda raforku til að knýja núverandi flota bensínbíla. Fyrsta verksmiðjan sem nú rís við Svartsengi mun frá og með næsta vori framleiða eldsneyti til nota á innanlandsmarkaði en með næstu og stærri verksmiðju mun framleiðslan einnig beinast að útflutningsmarkaði.

Á Norðurlöndunum, Bretlandi og meginlandi Evrópu er þegar til staðar ört vaxandi markaður fyrir vistvænt eldsneyti. Evrópusambandið hefur bundið í lög að á árunum 2012 til 2020 verði hlutur vistvæns bifreiðaeldsneytis aukinn stig af stigi úr 5,75% í 10% af orkuinnihaldi. Lítils hluta þarfarinnar er nú mætt með etanóli sem unnið er meðal annars úr maískorni, hveiti og sykurreyr. Etanól og metanól eru tvær einföldustu gerðir alkóhóls eða spíra, þau hafa áþekka brunaeiginleika og voru fyrstu bílvélarnar í raun hannaðar með tilliti til þeirra.

Gildandi reglugerðir um gæði á hefðbundnu bensíni hafa um langt skeið heimilað 3% metanólinnihald og hafa slíkar blöndur raunar verið í umferð víða, bæði fyrr og nú. Í Bandaríkjunum og Brasilíu eru nú einnig um 20 milljón fjölorkubílar sem eru lítillega breyttir bensínbílar sem geta keyrt á hvaða blöndu sem er af bensíni og alkóhólum (metanól og etanól). Metanól er því hægt að nota á hefðbundna bensínbíla eða bíla sem breytt hefur verið með litlum tilkostnaði.

Gunnlaugur gagnrýnir orkunýtingu metanólframleiðslu. Við öll umbreytingarferli tapast orka. Þar eru og verða sóknarfæri í tækniþróun. Hvað ferli CRI varðar er orkunýtni góð miðað við aðra raunhæfa iðnaðarferla. Mestu skiptir að heildarferillinn er hagkvæmur, fyrir framleiðandann og starfsfólkið, orkufyrirtækin og þjóðarbúið. Að öðrum kosti yrði fjárfesting ekki til staðar eða sala orku. Þá eru ekki talin með jákvæð áhrif á umhverfi og gjaldeyrisjöfnuð.

Senn horfir til betri vegar í samgöngu og orkumálum. Vonandi megum við búast við upplýstri umræðu.

 




Skoðun

Sjá meira


×