Lífið

Á uppleið innan hárbransans

Sara er listrænn stjórnandi hjá Wella í Danmörku.
Sara er listrænn stjórnandi hjá Wella í Danmörku.

Sara Katrín Sigurðardóttir hefur unnið hjá hárvöruframleiðandanum Wella undanfarin þrjú ár og starfar sem listrænn stjórnandi fyrirtækisins í Danmörku auk þess sem hún er meðlimur í Norðurlandaliði hárvöruframleiðandans Sassoon.

„Það sem ég geri er meðal annars að halda námskeið fyrir hárgreiðslufólk þar sem allar nýjungar eru kynntar. Hárbransinn er ekki ólíkur tískubransanum og þurfum við til dæmis alltaf að vinna línurnar okkar ár fram í tímann," útskýrir Sara Katrín.

Wella var opinber styrktaraðili tískuvikunnar í Kaupmannahöfn sem fram fór í síðustu viku og hafði Sara Katrín umsjón með allri hárhönnun á hátíðinni.

„Tískuvikan er uppáhaldstíminn minn," segir hún og hlær. „Það er mikið stress á meðan á henni stendur en það er alltaf jafn gaman að sjá afraksturinn eftir á. Fyrirsæturnar koma oft beint af öðrum sýningum og þá með aðrar greiðslur í hárinu og þá þarf að hafa hraðar hendur."

Sara þykir mjög efnileg á sínu sviði.
Sara Katrín vinnur náið bæði með fatahönnuðum og stílistum þegar hanna á hárgreiðslur fyrir tískusýningar. „Þeir koma með hugmyndir sem við þróum svo í sameiningu og svo þarf ég að kenna hárgreiðslufólkinu hvernig á að framkvæma greiðsluna," útskýrir hún.

Sara flutti til Kaupmannahafnar árið 2003 og ætlaði aðeins að dvelja þar sumarlangt, hún kunni þó svo vel við sig að hún ílengdist. Hún hóf störf á hárgreiðslustofu í borginni en eftir svolítinn tíma langaði hana að breyta til en halda þó áfram að starfa innan fagsins.

„Mér fannst spennandi að komast að hjá Wella. Ég var svo heppin að vera ráðin á staðnum eftir inntökuprófið og hef starfað þarna síðan. Það góða við að vinna hjá svona stóru fyrirtæki er að það opnast alltaf fleiri dyr ef maður stendur sig vel," segir Sara að lokum. - sm






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.