Skoðun

Hvar sjáum við djörfung og dug?

Ragnheiður Fossdal skrifar

"Fátækt og velferð" grein Sigrúnar Júlíusdóttir prófessors í félagsráðgjöf við HÍ á visir.is þann 8. janúar 2011er áhugaverð lesning og vakti hjá mér ýmsar hugrenningar. Ég er að mörgu leyti sammála prófessornum - og Karli Marx - en hefði þó kosið að sjá markvissari tillögur til úrbóta - úrbóta sem þjóðin þarf á að halda ekki seinna en strax.

Ég tel okkur þurfa nýtt kerfi sem verndar landsmenn frá fátæktargildrunni. Kerfi sem tekur tæknina í þjónustu sína og byggir m.a. á þeim rafrænu upplýsingum sem þegar er búið að safna um okkur öll.

Kerfið þarf ekki að vera flókið né tímafrekt. Allir landsmenn eru á skrá, hvað varðar búsetu, viðskipti við bankastofnanir, skattaskil osfrv. Ef rafrænar upplýsingar eru réttar, er einfalt að finna þá sem hjálpa þarf. Þeir sem eru undir lágmarki fá t.d. mun á tekjum og lágmarksframfærslu með rafrænni færslu á bankareikning; aðstoð sem reiknuð er út miðað við aðstæður í hverjum mánuði. Þetta kemur í veg fyrir að misskilið stolt valdi alvarlegum skorti hjá þeim sem frekar munu svelta en að láta sjá sig í biðröð eftir mat. Að auki kemur þetta í veg fyrir að fólk í fullri vinnu sæki viðbót á hjálparstofnanir, hjálp sem auðveldar þeim lífið, en er í raun að ræna aðstoð frá þeim sem hafa úr miklu minna að spila og eru haldnir þeirri ranghugmynd, eins og margur stoltur Íslendingurinn, að kerfi á við matargjafir hjálparstofnana sé "ölmusa". Þeir sem ekki falla undir viðmið um lágmarksframfærslu og/eða telja sig þurfa annars konar aðstoð, gætu í útópísku norrænu velferðarþjóðfélagi leitað til fagaðila sem aðstoða þá við að ná tökum á tilverunni.

Það sem þarf nú, fyrir þá sem eru í "kröggum við að sjá sér og sínum farborða, jafnvel þeim sem hafa aflað sér menntunar og tamið sér gildi vinnusemi og heiðarleika" er:

Raunhæft mat á lágmarksframfærslu - sem alþingismenn taki ákvörðun um árlega samhliða gerð fjárlaga.

Aðstæður allra landsmanna verði metnar rafrænt til þess að finna þá einstaklinga sem lenda undir lágmarksframfærslu.

Allir undir viðmiðunarmörkum fái mismun greiddan mánaðarlega.

Öflugt teymi fagaðila viðhafi rafrænt og raunverulegt eftirlit með því að kerfið sé ekki misnotað.

Því hvað sem líður Kommúnistaávarpinu frá 1847 og boðum þess um að að hver og einn leggi sitt af mörkum eftir getu og hver og einn eigi rétt eftir sinni þörf, viljum við - þjóðin - við sem erum af alefli að reyna að breyta samfélaginu - samt ekki að þjófræði, gerræði og fáræði ættar- og vinasamfélagsins haldi áfram að rústa voninni um lýðræði og fagleg vinnubrögð - sem eru í dag eina vonin sem íslenskt samfélag á eftir.






Skoðun

Sjá meira


×