Lífið

Helgi Pé tekur við Óskastund Gerðar

Helgi Pétursson tekur við stjórnartaumunum í Óskastundinni sem er á dagskrá Rásar 1 á föstudögum. Fréttablaðið/anton
Helgi Pétursson tekur við stjórnartaumunum í Óskastundinni sem er á dagskrá Rásar 1 á föstudögum. Fréttablaðið/anton
„Það er spurning hvað maður gerir við tónlist Ríó Tríó? Ætli ég verði ekki bara að setja einhvern kvóta,“ segir Helgi Pétursson eða bara Helgi Pé, oftast kenndur við Ríó Tríó. Helgi tekur við útvarpsþættinum Óskastundinni sem útvarpskonan Gerður G. Bjarklind hefur stjórnað svo lengi sem elstu menn muna. Og sest í fyrsta skipti við hljóðnemann á sjálfum þrettándanum.

Helgi, sem rekur lítið fyrirtæki í kringum jarðhitasýningu í Hellisheiðarvirkjun, segist ætla að fara að fordæmi Gerðar og ekki setja sig í neinar sérstakar stellingar, bara vera hann sjálfur. „Það eru ekki margir sem fara í fötin hennar Gerðar og ef ég ætlaði að gera það myndu nú sennilega einhverjir fjölskyldumeðlimir vilja ræða við mig undir fjögur augu. Ég hef hlustað á þennan þátt Gerðar í gegnum árin og maður þarf ekkert að laga það sem er ekki bilað,“ segir Helgi og bætir því við að Óskastundin sé eitt af sérkennum þessarar litlu þjóðar á þessari litlu eyju. „Þarna kristallast kannski best þessi mikla nánd og skyldleiki, þátturinn er eilítið eins og jólakveðjurnar og dánarfregnir og jarðarfarir, þetta þekkist hvergi annars staðar í heiminum.“

Þetta er hins vegar ekki í fyrsta skipti sem Helgi er á mála hjá RÚV, hann las fréttir í Skúlagötunni, nánast einn í húsinu, fyrir fjörutíu árum þegar Rás 1 var eina útvarpsstöð landsins. „Og þá mátti maður ekki gera mörg mistök án þess að allar línur glóðu. Ég er nú ekki gamall maður en þetta hef ég upplifað.“- fgg






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.