Skoðun

Díoxín og þrávirk afglöp

Björn Guðbrandur Jónsson skrifar
Þær reytast nú ein af annarri skrautfjaðrirnar úr hatti okkar Íslendinga. Hamingjusama þjóðin í hreina ferðamannalandinu, efnaða og vel menntaða þjóðin í óspillta samfélaginu finnur nú sjálfsmynd sína bráðna og afmyndast. Síðasta uppákoman, afhjúpun Fréttablaðsins á losun díoxínefna frá sorpbrennslu á Ísafirði birtir landsmönnum enn og aftur afdrifarík afglöp í stjórnsýslu og opinberum ákvörðunum. Almenningur á erfitt með að skilja hvað veldur. Hvernig stendur á því að opinber stjórnsýsla er svona illa haldin hér á landi? Heilu stofnanirnar ýmist kútveltast úti á þekju eða eru á harðahlaupum frá ábyrgð. Ef svona væri komið í tilveru einstaklings væri það til marks um að viðkomandi hafi misst stjórn á lífi sínu og lent á glapstigum.

Íslenskt samfélag á sannarlega betra skilið en þá stjórnsýslu sem hefur afhjúpast okkur undanfarna daga og misseri. Díoxínmengunin á Ísafirði sýnir okkur séríslenskt getuleysi stofnana gagnvart orðnum hlutum en málið á sér rætur mun lengra aftur, allt til þess er ákvörðun var tekin um að stefna sorpmálum byggðarlagsins inn á þessa braut. Sú ákvörðun er næstum 20 ára gömul. Málið sýnir okkur svart á hvítu að óvandaðar ákvarðanir, ekki síst á sviði umhverfismála, elta menn uppi þótt um síðir sé.

Málið er mér lítilsháttar skylt því á þeim tíma þegar ákvörðun var í deiglunni þar vestra starfaði ég við umhverfisráðgjöf og gerði mér ferð á Ísafjörð sumarið 1992 til að kynna fyrir forsvarsmönnum sveitarfélagsins valkosti við hugmyndir um sorpbrennslu. Ísafjörður var og er eitt helsta sjávarpláss á Íslandi, næsta löndunarhöfn við ein fengsælustu fiskimið þjóðarinnar og lengi vel var þar umfangsmikil fiskvinnsla í landi. Undirritaður var á þeim tíma talsvert haldinn þeirri hugmynd að óheppilegt væri fyrir lítinn bæ sem byggir afkomu sína á matvælaframleiðslu að starfrækja sorpbrennslu. Vitað var strax á þeim tíma að sorpbrennsla er ein helsta uppspretta díoxínmengunar í umhverfinu auk þess sem ýmis önnur erfið mengunarefni eins og þungmálmar, losna við sorpbrennslu og verða skaðlegir í umhverfinu. Allt eru þetta þrávirk mengunarefni og skaðinn af losun þeirra út í umhverfið óafturkræfur. Var það virkilega rétt fyrir bæjarfélag eins og Ísafjörð að stíga þetta skref og binda sig við svo áhættusama og dýra lausn í sorpmálum til næstu áratuga?

Sveitarstjórnarmenn á Ísafirði virtust á því. Brennsla hlyti að vera besta lausnin, hún leysti urðunarvandamálin og gjarna var viðkvæðið: „Já en hvað segir ráðuneytið?“ Þá var umhverfisráðuneytið til þess að gera nýkomið til sögunnar. Þangað litu menn gjarna eftir leiðsögn. Þetta var jú ár Ríó ráðstefnunnar og umhverfisráðuneytið þar í heilmikilli útrás eins og jafnan síðar á ráðstefnum og fundum um víða veröld.

Sjálfbær þróun og Ríó voru á hvers manns vörum og mikill gangur í

umhverfismálum.

Frammi fyrir raunverulegum viðfangsefnum hér heima var annað uppi á teningnum. Drungi og úrræðaleysi, þessir eiginleikar stjórnsýslunnar sem um síðir átti eftir að opinberast öllum landsmönnum svo eftirminnilega, voru ráðandi einkenni. Kannski skildu yfirvöld ekki hugtakið sjálfbær þróun. Hvernig sem því var háttað var enga forystu né leiðsögn að sækja þangað á þessari ögurstund í umhverfismálum vestur á fjörðum. Þegar raunveruleg tækifæri til sjálfbærrar þróunar gáfust reyndust yfirvöld einfaldlega ren í sortinni, sjálfbær þróun var öll í gæsalöppum og eitthvað til að tala um á ráðstefnum. Yfirvöld sögðu PASS þegar kom að veruleikanum á Fróni. Frammi fyrir svo öflugri opinberri yfirlýsingu stóð eitt bæjarfélag vestur á fjörðum berskjaldað og aðstöðulítill umhverfisráðgjafi forviða.

Þannig héldu sveitarstjórnamenn á Ísafirði sínu striki og undirbjuggu af kappi nýja og „fullkomna sorpbrennslu“ þ.e. meira af því sama. Því sorpbrennslu höfðu Ísfirðingar áður haft, á Skarfaskeri utan við Hnífsdal. Sú hafði þó verið bæjaryfirvöldum til mikils ama og lengi verið uppspretta óánægju og gremju meðal íbúa á Hnífsdal. Sömuleiðis virtist ekki skipta ísfirska sveitarstjórnarmenn neinu höfuðmáli að sorpbrennslan var örugglega langdýrasti kosturinn sem þeir áttu í stöðunni.

Ég er nú kominn að kjarna og innstu furðum þessa máls. Þær birtast mér í eftirfarandi spurningum: Hvernig má það vera að sveitarstjórnamenn á Ísafirði hafi tekið þá ákvörðun á fyrri hluta tíunda áratugar síðustu aldar að byggja sorpbrennslu sem í okkar samtíma er sannanlega ein helsta uppspretta mjög eitraðra og þrávirkra mengunarefna? Hvernig má það vera að í bæjarfélagi sem byggir afkomu sína á matvælavinnslu og sölu afurða á háþróaða og kröfuharða neytendamarkaði sé slík ákvörðun tekin þegar ljóst er að í þokkabót er um að ræða dýrasta hugsanlega valkost þeirra um úrræði í sorpmálum? Auk þess kemur ákvörðunin í kjölfar afar óyndislegrar reynslu bæjaryfirvalda og íbúa af sorpbrennslu í héraðinu allmörg ár þar á undan. Voru aðrir valkostir bæjarfélagsins svo slæmir að þessi ákvörðun reyndist nauðsynleg?

Að framan lýsti ég hvernig umhverfisyfirvöld í landinu virtust kæra sig kollótt um aðkallandi viðfangsefni á sviði umhverfismála hér heima og ekki skeytt um að veita leiðsögn þegar Ísfirðingar stóðu frammi fyrir sinni ákvörðun á öndverðum tíunda áratugnum. Ákvörðunin um skipan sorpmála á Ísafirði var þó fyrst og fremst heimamanna. Hér var um skattpeninga Ísfirðinga að ræða, þeirra byggðahagsmunir og þeirra heimahagar undir. Þó var þessi ákvörðun aldrei alfarið þeirra einkamál. Ímynd Íslands alls er að sjálfsögðu einnig í húfi. Fordæmið var einnig augljóst. Í kjölfar þess að brennslan reis á Ísafirði komu svo nokkrar brennslur til viðbótar á öðrum stöðum á landinu. Gjarna á stöðum sem gera út á ferðaþjónustu og hreint land, fagurt land. Við vitum að þær sorpbrennslur eru einnig uppspretta þrávirkra mengunarefna í sínu umhverfi.

Um þetta mál er margt ósagt enn. Umhverfisráðherra hefur ákveðið að skipa rannsóknarnefnd um aðdraganda hneykslisins á Ísafirði og sú á að skoða mál allt aftur til ársins 2003 þegar Íslendingar kríuðu fram undanþágur frá ESB reglum. Gott og vel, en má ég benda henni á að skoða málið frá byrjun þ.e. frá því að ákvörðunin var tekin um sorpbrennsluna Funa í Engidal í Skutulsfirði. Niðurstaðan af þeirri skoðun getur orðið okkur landsmönnum öllum afar lærdómsrík og við eigum heimtingu á að vita.




Skoðun

Sjá meira


×