Skoðun

Enn er neyð á Haítí

Anna Stefánsdóttir skrifar

Nú, ári eftir jarðskjálftann sem lagði Port-au-Prince höfuðborg Haítí í rúst þann 12. janúar 2010, eru húsarústirnar enn á sínum stað. Rúmlega milljón manns búa í tjöldum. Fréttir berast af ofbeldisverkum, sérstaklega gagnvart konum. Kólerufaraldur geisar. Hafa raunir þessarar þjóðar engan endi?

Þó að ástandið á Haítí sé nöturlegt enn þá hefur neyðaraðstoð komið í veg fyrir ennþá alvarlegri afleiðingar skjálftans. Og, sem ekki er minna um vert, þá hefur gjafmildi alþjóðasamfélagsins tryggt að fjármunir eru til staðar í uppbygginguna, sem vonandi fer brátt að ganga hraðar.

Rústabjörgunarsveit Slysavarnafélagsins Landsbjargar sýndi okkur Íslendingum hversu miklu þrautþjálfaður hópur manna með afmarkað starfssvið getur áorkað þegar brugðist er við hratt og örugglega.

Sendifulltrúar Rauða kross Íslands hafa einnig unnið þrekvirki, einkum við umönnun sjúkra og slasaðra og útvegun vatns og hreinlætisaðstöðu.

Starfið heldur áfram. Fyrir tilstilli almennings og íslenskra stjórnvalda, sem hafa lagt fram fé til hjálparstarfs Rauða krossins, er hópur haítískra sjálfboðaliða núna að fræða fórnarlömb jarðskjálftans um mikilvægi hreinlætis til að hefta útbreiðslu kóleru, sem hefur þegar dregið 3.000 manns til dauða. Við hjá Rauða krossi Íslands gerum ráð fyrir að hlúa áfram að þurfandi fólki á Haítí næstu tvö árin.

Margar hendur vinna létt verk. Á vegum Rauða kross félaga víðs vegar að í heiminum hafa 172 þúsund fjölskyldur á Haítí fengið efni til að koma sér upp skjóli, 216 þúsund manns hafa notið heilbrigðisþjónustu og 317 þúsund manns fá daglega drykkjarvatn frá Rauða krossinum.

Oft hættir okkur til að einblína á það sem miður fer. Og það er hvergi auðveldara en á Haítí. En þá er gott að hafa í huga að þjóðir heims hafa lofað miklum fjárhæðum til endurreisnarinnar. Þó að hún hafi enn ekki hafist að ráði þá eru nú stofnanir og fjármunir til staðar.

Ef allt fer að okkar björtustu vonum þá verður ekki bara byggt upp eftir jarðskjálftann heldur verður Haítímönnum hjálpað að bæta sitt samfélag til langrar framtíðar. Á meðan munum við hjá Rauða krossinum halda áfram að vinna með okkar fólki á Haítí við að draga úr neyðinni, sem er svo sannarlega enn til staðar.






Skoðun

Sjá meira


×