Skoðun

Misskilningur um gjaldskrá

Þórður Guðmundsson skrifar
Vegna nýlegrar Kastljóssumræðu um að Landsnet hafi oftekið 6-7 milljarða króna í flutningskostnað af orkusölufyrirtækjunum á síðustu árum er nauðsynlegt að koma á framfæri staðreynum málsins en með þær hefur verið farið heldur frjálslega að mati okkar sem störfum hjá Landsneti.

Árið 2007 varð það samdóma niðurstaða orkusölufyrirtækjanna, Orkustofnunar og Landsnets að æskilegt væri að færa gjaldskrá Landsnets fyrir flutningskostnað stórnotenda á raforku úr krónum yfir í dollara. Þetta var talið eðlilegt þar sem langstærsti hluti allra sölusamninga raforku er í dollurum og sama gegnir um fjárfestingaskuldbindingar fyrirtækjanna. Lögum samkvæmt ber að hafa gjaldskrá Landsnets hóflega þannig að tekjur dugi fyrir kostnaði við flutning orkunnar, afskriftum og arðsemi. Orkustofnun er falið að ákveða fyrirtækinu þau tekjumörk sem gjaldskráin miðast við og að hafa eftirlit með breytingum á gjaldskránni. Gjaldskrá Landsnets gildir annars vegar fyrir almenna notendur og hins vegar fyrir stórnotendur og verður ekki annað sagt en að henni hafi verið stillt í hóf því frá stofnun fyrirtækisins árið 2005 hefur gjaldskráin fyrir almenna notendur hækkað um 20% á sama tíma og aðrar dreifiveitur í landinu hafa hækkað sínar gjaldskrár um 40-80%.

Gjaldskrá var lækkuð

Reynt er að haga gjaldskrá Landsnets þannig að hún sé sem stöðugust þannig að til lengri tíma litið sé jöfnuður í viðskiptum við orkusölufyrirtækin, þótt komið geti tímabil þar sem hallar á annan hvorn aðilann. Stundum er misræmið orkusölufyrirtækjunum í hag og í öðrum tilfellum Landsneti. Haustið 2008 var þessi staða orkusölufyrirtækjunum í hag en það breyttist snögglega við gengisfall krónunnar í kjölfar bankahrunsins í lok október. Á vormánuðum 2009 þegar ljóst var að misvægi orkusölufyrirtækjanna gagnvart Landsneti vegna stórnotenda fór vaxandi var ráðuneyti og Orkustofnun gerð grein fyrir stöðunni og byrjað að huga að leiðum til að leiðrétta það. Við næstu gjaldskrárbreytingu í janúar 2010 var gjaldskráin síðan lækkuð um 7%. Áfram er misræmi vegna orkuflutnings fyrir stórnotendur sem væntanlega mun ganga tilbaka til orkusölufyrirtækjanna á næstu misserum og árum í formi lægri gjaldskrár. Hver þessi leiðrétting verður nákvæmlega liggur ekki fyrir þar sem enn hefur ekki verið lokið endurskoðun á eignagrunni Landsnets en breytingar á honum munu hafa áhrif á gjaldskrána.

Ráðherra kveður upp úr

Í þeirri umræðu sem hófst nú í byrjun janúar réttu ári eftir að leiðrétting var gerð á gjaldskrá Landsnets hafa því miður verið settar fram fullyrðingar sem byggja á misskilningi sem nauðsynlegt er að leiðrétta. Þannig hefur því verið haldið fram að eitt þúsund milljónir króna hafi verið ofteknar við flutning á rafmagni til almenningsveitna. Þetta er af og frá.

Sú innistæða sem orkusölufyrirtækin mynduðu hjá Landsneti á árinu 2009 er eingöngu til komin vegna orkuflutnings til stóriðju. Undir þetta er tekið í yfirlýsingu sem Katrín Júlíusdóttir iðnaðarráðherra sendi frá sér eftir fund með stjórnendum Orkustofnunar og Landsnets síðast liðinn fimmtudag 6. janúar. Þar kemur fram að aðilar séu sammála um að gjaldskrá Landsnets fyrir flutning raforku til almenningsveitna hafi að öllu leyti verið innan þeirra tekjumarka sem Orkustofnun setti fyrirtækinu og í samræmi við gildandi eignagrunn. Umræða um að Landsnet hafi innheimt um einum milljarði króna of mikið af almannahlutanum miðað við sett tekjumörk sé því byggð á misskilningi.

 




Skoðun

Sjá meira


×