Innlent

Alsæl með verðlaunin

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Katrín Júlíusdóttir er ráðherra ferðamála.
Katrín Júlíusdóttir er ráðherra ferðamála. Mynd/ Stefán.
„Ég er alsæl með þetta. Svo er maður líka bara svo þakklátur af því að það voru svo margir sem komu að þessu," segir Katrín Júlíusdóttir, ráðherra ferðamála, um þá viðurkenningu sem Inspired by Iceland átakið hefur fengið. Átakið vann í gærkvöldi til gullverðlauna á European Effie awards, en verðlaunin eru þau virtustu sem evrópsku auglýsingafólki getur hlotnast.

„Þetta var unnið í svo góðri samvinnu, þvert á stofnanir, þvert á fyrirtæki, þvert á auglýsingafyrirtæki," segir Katrín. Mjög fjölmennur og breiður hópur fólks hafi komið að gerð átaksins.

„Það sem var líka hvað allra best við þetta var hvað þjóðin tók mikinn þátt. Það var ekki hvað síst það sem vakti svona mikla athygli erlendis," segir Katrín. Íslendingar tóku þátt með því að senda myndskeið sem gert var til vina sinna erlendis.

Katrín segir að átakið hafi verið merkilegt að því leytinu til að þarna hafi menn verið að markaðssetja Ísland í stað þess að vera að markaðssetja einstakt fyrirtæki eða stofnanir. Katrín segir að tölur frá flugfélögunum bendi til þess að tekist hafi að nýta athyglina sem Ísland hefur fengið vegna náttúruhamfara á jákvæðan hátt. Verkefnið framundan sé að bæta ferðamannastrauminn til Íslands yfir vetrartímann.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×