Skoðun

Aðför á aðventu

Kristinn Örn Jóhannesson skrifar
Yfir hátíð ljóss og friðar fluttu fjölmiðlar æsifréttir í beinni af sorglega innantómum átökum stjórnar VR. Baktjaldamakk, stóryrði og skítkast einkenndu persónulega atlögu sem gerð var að mér, formanni félagsins. Þessi barátta snýst því miður ekki um hagsmuni félagsmanna heldur völd. Plottið var slíkt að engu var líkara en að stjórn VR hefði sett upp enn eina Shakespeare-sýninguna. Félagsmenn horfa undrandi og daprir úr fjarska á þetta sjónarspil og skilja lítið um hvað leikritið fjallar.

Allur málatilbúnaður hefur verið með ólíkindum, sem birtist m.a. í því að naumur meirihluti stjórnar VR samþykkti að segja undirrituðum upp sem framkvæmdastjóra en sá hængur var á að það er staða sem ég gegni ekki og hef aldrei gegnt! Ég er einfaldlega formaður kjörinn af hinum almenna félagsmanni en ekki af stjórn félagsins. Nú hefur meirihlutinn leitað eftir lögfræðiáliti á eigin ákvörðun, sem segir meira en mörg orð.

VR er í gíslingu

Í hnotskurn má segja að VR sé í gíslingu tveggja fylkinga sem virðast hafa það markmið eitt að ná völdum og halda þeim. Annars vegar er það hópur fólks sem telur sig allt að því réttborinn til að stjórna VR og hefur gert áratugum saman. Þau vilja litlu breyta og vildu alls ekki horfast í augu við ábyrgð sína og mistök í tengslum við hrunið, hvað þá hreinsa til. Þessum hópi sárnaði mjög þegar ég, venjulegur launamaður úr hópi félagsmanna, var kjörinn formaður VR enda var ég ekki handvalinn til starfans eins og forverar mínir.

Svo er það hin fylkingin, öfgahópurinn, sem vill öllu bylta umhugsunarlaust. Þessi hópur segist vilja veg hins almenna félagsmanns sem mestan en þolir ekki ólík sjónarmið, hunsar lýðræðislegar niðurstöður og hafnar málamiðlunum. Öskra hæst um lýðræðið en virða það minnst.

Málefnalega er erfitt að henda reiður á afstöðu þessa hóps til hagsmuna VR-félaga, enda virðist andstaðan beinast gegn verkalýðshreyfingunni í heild sinni, lífeyrissjóðakerfi landsmanna, ríkisstjórn og stjórnarandstöðu. Virðist sem þau hafi mestar áhyggjur af kostnaði atvinnurekenda vegna greiðslna í atvinnuleysistryggingasjóð, starfsendurhæfingu, sjúkra- og orlofssjóði stéttarfélagana svo eitthvað sé nefnt. Eru þau ekki bara í röngu liði?

Sameiginlegt eiga þessar fylkingar þó að virðast taka eigin persónulegu markmið fram yfir hagsmuni almennra félagsmanna, og velja sundrungu og átök þegar samvinnu og sameiningar er þörf. Hófsamar raddir í stjórninni, sem vissulega eru til staðar, hafa því miður drukknað í ópum hinna stríðandi fylkinga.



Val um vantraust eða vildarsamning


Áður en stjórnin reyndi að samþykkja á mig vantraust, sem hún hefur ekki umboð til, eða víkja mér úr starfi framkvæmdastjóra, sem ég ekki gegni, var mér fyrst óformlega boðið að stíga til hliðar sem formaður, því fylkingarnar hefðu náð saman um nýtt formannsefni. Í framhaldi af því ótrúlega tilboði var ýjað að rausnarlegum starfslokum og möguleikinn á ráðgjafarþjónustu nefndur. Lýðræði og lög virtust hins vegar hafa gleymst í þessu makki. Það þarf engan siðfræðing til að átta sig á því.

Staðreyndin er sú að þrátt fyrir nánast óstarfhæfa stjórn hefur tekist að tryggja félagsmönnum það sem þeir eiga skilið - framúrskarandi þjónustu á skrifstofum félagsins. Það var forgangsverkefni mitt þegar ég var kjörinn formaður að koma á nauðsynlegum friði, ró og trúnaði við starfsmenn og sviðsstjóra félagsins svo að félagsmenn fengju áfram góða þjónustu á þessum erfiðu tímum. Það hefur tekist vel enda eru einu kvartanirnar sem mér hafa borist frá vinnuveitendum sem hefur fundist félagið ganga fullhart fram í réttindagæslu fyrir félagsmenn sína. Er það gagnrýni sem ég tek glaður á móti. Mér hefur einnig tekist þrátt fyrir mótbyr að opna starf félagsins til að gera það lýðræðislegra. Líklega hafa aldrei fleiri félagsmenn í sögu VR tekið beinan þátt í starfinu s.s. við mótun afstöðu í aðdraganda kjarasamninga og við stefnumótun.

VR þarf nýja stjórn

Þessi miklu átök hafi tekið mikið á mig og mína fjölskyldu en stærsta fórnarlambið er félagið sjálft. Þegar allt kemur til alls eru tæplega 30 þúsund félagsmenn að líða fyrir átök 100-200 félagsmanna og það mitt í kjarasamningum. Er virðing og réttlæti í því? Við slíkar kringumstæður hlýtur maður að velta framhaldinu fyrir sér. Þar hljóta að vega þyngst hagsmunir félagsmanna. Satt að segja er ég orðinn baráttulúinn og í vafa um hvort ég taki slaginn á nýjan leik.

Af samtölum mínum við VR-félaga um allt land á síðastliðnum tveimur árum er ég sannfærður um að fylkingarnar sem nú berjast á banaspjótum um völdin í VR eiga lítinn hljómgrunn meðal almennra félagsmanna. Þeir þurfa á sterku og samhentu stéttarfélagi að halda. Því hvet ég almenna félagsmenn til að bjóða sig fram til stjórnarsetu í komandi kosningum. Við verðum að losna við flokkadrætti og hagsmuni stjórnmálaflokka og fyrirtækja úr stjórn VR.




Skoðun

Sjá meira


×