Innlent

Samfylking og Sjálfstæðisflokkur vissu af tölvunni

Birgitta Jónsdóttir.
Birgitta Jónsdóttir.

„Mér finnst skrýtið að mér hafi ekki verið sagt frá þessu, enda fannst tölvan í herberginu við hliðina á mér," segir Birgitta Jónsdóttir, þingmaður Hreyfingarinnar, um dularfulla tölvu sem fannst í skrifstofuhúsnæði á vegum Alþingis við Austurvöll. Birgitta segir engn hafa sagt þingmönnum Hreyfingarinnar frá tölvunni né hafi formaður eða þingmenn Vinstri grænna verið látnir vita.

„En svo vissu formenn Samfylkingarinnar og Sjálfstæðisflokksins um þetta," segir Birgitta sem segist hafa sætt ásökunum í morgun um að hafa komið tölvunni fyrir. Hún segir það þvætting.

Að sögn Birgittu náði tölvan ekki að afrita nein gögn. Tölvunni var komið fyrir í herberginu og grunur leikur að markmið hennar hafi verið að afrita gögn Alþingis og þingmanna.

Spurð hvort það sé mögulegt að Wikileaks standi að baki tölvunni, eins og látið er að liggja í frétt Morgunblaðsins, sem greindi fyrst frá málinu, svarar Birgitta: „Ég veit ekki til þess að Wikileaks hafi haft frumkvæði af því að hakka sig inn í tölvur heldur taka þeir við upplýsingum. Þetta eru mjög alvarlegar ásakanir á hendur Wikileaks."

Forseti Alþingis mun greina betur frá málinu á þingi klukkan tvö í dag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×