Innlent

Ríkisstarfsmenn sjaldan áminntir í starfi

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Sveinn Arason er ríkisendurskoðandi. Mynd/ GVA.
Sveinn Arason er ríkisendurskoðandi. Mynd/ GVA.
Það er afar fátítt að ríkisstarfsmenn séu áminntir í starfi, samkvæmt nýrri könnun Ríkisendurskoðunar. Slík áminning er þó forsenda þess að hægt sé að segja starfsmanni upp.

Í skýrslu sem Ríkisendurskoðun skrifaði um málið kemur fram að ástæðan fyrir því hve fáar áminningar séu veittar sé meðal annars sú að ferlið sem lögin mæli fyrir um sé flókið og tímafrekt. Könnun Ríkisendurskoðunar meðal forstöðumanna leiddi í ljós að margir þeirra veigri sér við því að beita áminningu og noti fremur önnur og óformlegri úrræði ef þeir telji sig þurfa að segja upp starfsmanni. Einnig ríkii neikvætt viðhorf í samfélaginu til áminningar en hún sé talin jafngilda ærumissi fyrir þann sem fyrir henni verður.

Þá er að mati Ríkisendurskoðunar ekki ávallt við hæfi að beita áminningu þótt skilyrði fyrir beitingu hennar virðist vera fyrir hendi, t.d. getur ástæða þess að starfsmaður nær ekki fullnægjandi árangri verið sú að hann skorti líkamlegt eða andlegt atgervi. Úrræðið er því að ýmsu leyti gallað að mati stofnunarinnar og nýtist ekki eins og upphaflega var ætlað.

Ríkisendurskoðun segir að endurbæta þurfi lagaákvæði um áminningu og brýnt sé að meta frammistöðu ríkisstarfsmanna með faglegum hætti.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×