Skoðun

Sameiningar leikskóla

Arndís Árnadóttir og Sólveig Dögg Larsen skrifar

Nú hefur verið settur saman starfshópur til að greina tækifæri til samrekstrar og/eða sameiningar leikskóla, grunnskóla og frístundaheimila. Þetta hefur í för með sér að þar sem sameiningar koma til með að verða, verður öllum stjórnendum sagt upp og búnar til nýjar stöður við sameinaða skóla. Fjöldamargir leikskólastjórnendur eru uggandi yfir þessum aðgerðum og liggja þar ýmsar vangaveltur að baki.

Við teljum að ekki sé næg reynsla komin á sameiningar sem þessar sem nú þegar hafa verið gerðar til þess að þær geti verið fordæmisgefandi. Við verðum að horfa til framtíðar og ef ekki er vandað til verks gæti kostnaðurinn orðið meiri þegar fram í sækir heldur en nú er. Við teljum álag á leikskólastjóra hafa verið mjög mikið undanfarin ár og alltaf er verið að auka við verkefnin sem þeir þurfa að sinna. Leikskólastjóri ber ábyrgð á öllu fagstarfi í leikskólum og þarf að hafa meiri ítök í faglegri skipulagningu þar sem fagmenntaðir starfsmenn eru í minnihluta þó að í leikskólunum starfi fjöldinn allur af vel hæfu fólki.

Leikskólastjórinn er starfsmannastjóri á sínum vinnustað með allri þeirri vinnu sem því tilheyrir. Hann þarf að takast á við öll þau daglegu mál sem koma upp í starfshópnum, hann þarf að miðla málum, veita ráðgjöf og þarf að vita um allt sem gerist. Leikskólastjórinn þarf að vera sýnilegur nemendum og starfsfólki og mynda tengsl. Með því að auka álag á hann og taka hann úr tengslum við fólkið í skólanum er skapað óöryggi í starfsmannahópnum sem börnin munu skynja.

Leikskólastjóri sér einnig um allan innri rekstur leikskólans, sér um að viðhaldi á húsnæði sé sinnt og að öryggismál séu til fyrirmyndar. Hann sér um innkaup fyrir leikskólann, hefur samskipti við foreldra þegar þeir koma í fyrsta viðtal og þjónustar þá. Leikskólastjóri ber ábyrgð á að endurmat sé gert í leikskólanum tvisvar til þrisvar sinnum á ári og að standa að úrbótum ef þörf krefur. Auk alls þessa hefur fundarseta leikskólastjóra aukist til muna enda er hann tengiliður leikskólans við samstarfsaðila.

Aðstoðarleikskólastjórinn er hægri hönd leikskólastjórans, vinnur ásamt honum að daglegri stjórn leikskólans og skipulagningu starfsins og er staðgengill í hans fjarveru. Hann sér yfirleitt um heimasíðu leikskólans en það er mikið starf ef vel á að vera, einnig hefur hann tekið á sig mikið af þeim verkum sem leikskólastjóri þarf að inna af hendi svo hægt sé að komast yfir allar þær skyldur sem á honum hvíla. Aðstoðarleikskólastjórum í þriggja deilda leikskólum ber að vera með deildarstjórn svo að hann getur ekki verið eins mikil hjálp fyrir leikskólastjórann eins og þörf er á en það fyrirkomulag hefur verið afleitt og skapað mikið álag fyrir báða stjórnendur. Í fjögurra deilda leikskólum hefur aðstoðarleikskólastjórinn aðeins 20% stjórnunarhlutfall, sem er mjög óraunsætt og er full þörf á að auka það hlutfall til muna. Með sameiningu tveggja leikskóla má segja að staða tveggja stjórnenda sé lögð niður, aðstoðarleikskólastjóri sinnir þá starfi sem leikskólastjóri sinnti áður í öðrum skólanum en hefur engan sér til aðstoðar. Þetta þýðir að enn fleiri verkefni bætast á deildarstjórana en þeir eru hluti af stöðugildum inni á deildum og hafa nóg með sitt.

Deildarstjórar í 100% starfi eiga fimm undirbúningstíma á viku sem erfitt er að leysa þegar mannekla er í leikskólum. Afleysingahlutfallið var skert fyrir tveimur árum og nær sú afleysing sem er í húsi stundum ekki til að leysa alla undirbúningstíma og forföll sem verða í starfsmannahópnum. Ef deildarstjórar fá fleiri verkefni þurfa þeir meiri undirbúningstíma og afleysingu til að leysa það. Þetta hefur í för með sér meira álag á hinn almenna starfsmann auk þess sem deildarstjóri er oft eini fagaðilinn inni á sinni deild og verður nú enn meira fjarri deildinni. Þetta aukna álag bitnar svo að lokum á börnunum, sem síst mega við því á krepputímum þegar hriktir í öllum stoðum.

Einnig er verið að skoða samrekstur grunnskóla og leikskóla en ekki er fyrirséð hvernig slík sameining gæti átt sér stað ef skólarnir eru ekki í sama húsi. Þá er líka hætta á að leikskólastjórar veigri sér við að sækja um stöðu skólastjóra vegna vanþekkingar á grunnskólamálum, sem og vegna stærri og flóknari rekstrareiningar.

Að auki óttumst við að þeir leikskólastjórar og aðstoðarleikskólastjórar sem hljóta ekki ráðningu eða kjósa að sækja ekki um þessar stöður vegna aukins álags í starfi fari úr starfsgreininni og kjósi sér annan starfsvettvang. Þar fer mikill mannauður og margra ára reynsla og þekking á leikskólamálum.

Við leikskólastjórnendur eigum því mjög erfitt með að koma auga á þann faglega og fjárhagslega ávinning sem sameiningar eiga að hafa í för með sér. Þau rök þurfa að vera mjög sterk og vega þyngra en sá fórnarkostnaður sem fyrir hendi er.

Fyrir alla muni, vandið ykkur!

 




Skoðun

Sjá meira


×