Innlent

Ætlaði aldrei að verða lífstíðar þingmaður

Þórunn Sveinbjarnardóttir þingmaður Samfylkingarinnar hefur sagt af sér þingstörfum og ætlar að hefja nám í Háskóla Íslands í haust. Tilkynningin kom þingmönnum í opna skjöldu í dag.

Þórunn Sveinbjarnardóttir hefur setið á þingi fyrir Samfylkinguna síðan árið 1999. Hún gegndi starfi umhverfisráðherra á árunum 2007-2009 og hefur verið þingflokksformaður Samfylkingarinnar frá árinu 2010. En nú segir hún kominn tíma til að breyta til.

„Það hefur verið afskaplega góður og gefandi tími, líka erfiður, ég hef safnað mikilli reynslu. Ég ætlaði aldrei að vera þingmaður til æviloka," segir Þórunn.

Nú ætlar Þórunn að setjast á skólabekk og læra Siðfræði og Heimspeki við Háskóla Íslands. Hún segist þó síður en svo vera hætt í pólitík og mun áfram starfa í þágu kvenfrelsis, umhverfisverndar og jafnaðarstefnu innan Samfylkingarinnar. Þingmenn voru sammála um að mikill missir yrði af henni á þingi.

Það er Lúðvík Geirsson fyrrverandi bæjarstjóri í Hafnarfirði sem mun taka sæti Þórunnar á þingi en einnig mun þingflokkur samfylkingarinnar nú velja sér nýjan þingflokksformann á meðan mun Jónína Rós Guðmundsdóttir varaformaður þingflokksins gegna starfinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×