Skoðun

Af virðingu

Þórarinn Magnússon skrifar

Margt er mér minnisstætt úr kennslustundum Gísla heitins Jónssonar, fyrrum íslenskukennara við Menntaskólann á Akureyri. Ekki síst yfirferð hans um Njálssögu. Í þeirri sögu taldi hann að finna mætti stystu mannlýsingu Íslendingasagnanna. Kafli 47 hefst svo: „Otkell hét maður. Hann var Skarfsson Hallkelssonar." Í næstu málsgrein segir ennfremur: „Skammkell hét maður. Hann bjó að Hofi öðru. Hann átti vel fé. Hann var maður illgjarn og lyginn, ódæll og illur viðureignar. Hann var vinur Otkels mikill." Þarflaust að fara fleiri orðum um Otkel þennan.

Þetta kom mér í hug þegar ég hljóp á grein Guðmundar Andra Thorssonar í Fréttablaðinu í dag, 10. janúar 2011. Honum finnst augljóslega brýnt, eins og ýmsum fleiri mannvitsbrekkum úr fjölmiðlaflóru höfuðborgarinnar að koma höggi á „afdaladrenginn" Ásmund Einar Daðason, alþingismann. Bersýnilega kannast Guðmundur Andri við stílbragð Njáluhöfundar. Hann telur upp meinta samherja Ásmundar Einars og ekki er fríður flokkurinn, maður minn; Jón Valur Jensson, Páll Vilhjálmsson, Styrmir Gunnarsson og Davíð Oddsson!! Steingrímur J. Sigfússon, Árni Þór Sigurðsson, Katrín Jakobsdóttir og Svandís Svavarsdóttir eru hins vegar ekki samherjar Ásmundar Einars. (Skyldu þau vera félagar í Heimssýn?) Ég les það á milli línanna að þau séu hins vegar samherjar Guðmundar Andra Thorssonar enda mun geðþekkari hópur en Jón Valur Jensson og co.

Mér er spurn. Er þetta það sem fylgjendur aðildar Íslands að Evrópusambandinu kalla svo ákaft eftir og nefna „upplýsta umræðu"? eða „að lyfta umræðunni á hærra plan". Ef við viljum temja okkur „rökræður" af þessu tagi getum við sem best haldið áfram og talið upp nokkra liðsmenn Guðmundar Andra Thorssonar. Við gætum t.d. byrjað á því að nafngreina nokkra „útrásarvíkinga" sem ólmir vildu/vilja inn í Evrópusambandið. Nokkrir fyrrverandi bankastjórar myndu ekki óprýða flokkinn né heldur helstu eigendur og aðstandendur Fréttablaðsins. Og svo framvegis.

Nei, ég læt vera að nafngreina fólk og spyrða saman eins og Guðmundur Andri gerir. Það gæti bara orðið kafli 2 í sögunni endalausu.






Skoðun

Sjá meira


×