Skoðun

Villuljós í orkumálum

Gunnlaugur H. Jónsson skrifar
Nýlega hafa borist fréttir af því að Landsvirkjun og Carbon Recycling International (CRI) hafi undirritað viljayfirlýsingu um að meta hagkvæmni þess að reisa metanólverksmiðju í nágrenni jarðvarmavirkjunar Landsvirkjunar við Kröflu á Norðausturlandi. Samkvæmt heimasíðu Landsvirkjunar myndi verksmiðjan hreinsa koltvísýring úr útblæstri Kröflustöðvar og breyta honum í metanól með hjálp raforku og vatns. Hugsanleg orkuþörf verksmiðjunnar er 50-60 MW og myndi hún þá framleiða 50-100 milljónir lítra af metanóli á ári með hliðsjón af þeirri framleiðsluaðferð sem yrði notuð.

Miðað við miðgildi þessara talna á að nýta 55 MW sem samsvarar um 440 GWh af raforku til þess að framleiða 75 milljónir lítra af metanóli. Það þarf því um 6 KWh af raforku til framleiðslu á hverjum lítra af metanóli. Orkuinnihald metanóls er 15,8 MJ á lítra eða með öðrum orðum eru 4,4 KWh í hverjum lítra. Spyrja má sig hverjum komi í hug að fjárfesta fyrir tugi milljarða til þess að breyta raforku í efnaorku með nýtni sem er aðeins 75% á sama tíma og 80% af raforku heimsins eru framleidd með því að brenna efnaorku, einkum jarðgas og kol. Til þess að loka hringnum má hugsa sér að flytja metanólið út þar sem það yrði brennt í raforkuveri og út kæmi um 1,5 KWh af raforku. Þannig hringavitleysa nýtist til þess að flytja út raforku með 25% nýtni og hefur þó ekki verið tekið tillit til orkunnar sem þarf til þess að flytja metanólið út. Sæstrengur væri nærtækari en metanól til útflutnings á raforku.

Spyrja má sig hvers vegna valið sé að framleiða metanól. Metanól, öðru nafni tréspíri, er eitrað alkóhól með orkuinnihald sem er aðeins um 45% af orku bensíns miðað við vikt. Fyrir utan það að vera eitrað þá er metanól mjög tærandi fyrir ál og því ekki vænlegt að brenna því í venjulegum bílvélum sem flestar eru úr áli.

Metanól er einkum framleitt úr jarðgasi og stærstu notin eru í efnaiðnaði. Það er einn hlekkur í framleiðslukeðju efnaiðnaðarins sem nýtir sér jarðgas og jarðolíu til framleiðslu á þúsundum efnavara, allt frá plasti til lyfja.

Verð á metanóli, fob Rotterdam, var að meðaltali € 254 á hvert tonn á þessu ári. Að teknu tilliti til eðlisþyngdar metanóls er verðið ISK 31 á hvern lítra. Söluverðmætið er því ISK 5,20 á hverja KWh raforku. Frá þeirri upphæð þarf að draga flutningskostnaðinn frá Kröflu til Evrópu. Hvar er samkeppnisforskot Íslands í þessum ferli?

Metan (jarðgas) er mest nýtti orkugjafinn í Evrópu og í öðru sæti í Norður-Ameríku á eftir olíu. Verð á metani, einkum í Norður-Ameríku, er aðeins brot af verði olíu. Metan er þess vegna mikilvægasta eldsneytið við raforkuframleiðslu í mörgum löndum. Metan er jafnframt í flestum tilvikum hráefnið sem notað er til framleiðslu á metanóli. Orkunýtingin við að breyta metani í metanól er mun betri en við framleiðslu á rafmagni úr metani. Af þessu sökum er það sóun á orku og verðmætum að keppa við metan með rafmagni við framleiðslu á metanóli.

Hugmyndin um framleiðslu á metanóli með rafgreiningu á vetni og koltvísýringi er ekki ný. Orkustofnun gaf út skýrslu árið 1980 sem bar heitið Framleiðsla eldsneytis á Íslandi. Þar var m.a. skoðuð sú hugmynd að framleiða metanól úr rafgreindu vetni og kolefni. Niðurstaðan þá eins og hún hlýtur að vera nú er að ekki sé hagkvæmt að framleiða metanól á Íslandi.

Í skammdeginu sækja menn í ljósið en það er villuljós að hugsa sér að breyta raforku í efnaorku á sama tíma og meirihluti rafmagns í heiminum er framleiddur með brennslu jarðefna. Bíðum róleg með frekari ákvarðanir um metanólframleiðslu þar til tilraunaverksmiðja Carbon Recycling International í Svartsengi hefur sannað sig fjárhagslega og tæknilega.

 




Skoðun

Sjá meira


×