Innlent

Forstjóri Eimskips biðst afsökuanr

MYND/AFP
Hafist var handa í gær við að afferma Goðafoss sem strandaði í Oslóarfirði á fimmtudag. Í gærmorgun var byrjað á því að flytja tvo gáma frá borði sem voru fullir af sprengiefni, en í gærkvöldi var búið að flytja um 20 gáma í allt. Um 200 gámar voru í fyrstu á dekki skipsins. Talið er að það gæti tekið nokkrar vikur að tæma Goðafoss.

Goðafoss verður dreginn af strandstað þegar búið verður að dæla olíunni úr skipinu og tæma gámana. Stærra gámaskip kemur inn fjörðinn í dag en það getur flutt fleiri gáma heldur en það skip sem flutti úr skipinu í gær.

Norska náttúruverndarstofnunin gerði rannsóknir á um 1.600 fuglum í firðinum, þar sem í ljós kom að um 50 af þeim höfðu komist í samband við olíu úr skipinu, að því er fram kemur á vef Aftenposten. Mikill ís er þar sem Goðafoss strandaði og hindrar það olíuna sem lekur úr skipinu að ná í land. Hún þykknar einnig í kuldanum, sem gerir vinnu við hreinsun auðveldari. En kalt veður gerir það líka að verkum að fuglarnir þola síður snertingu við olíuna.

Ólafur William Hand, upplýsingafulltrúi Eimskips, segir að búið sé að ná um 40 tonnum af olíu úr sjónum, og ómögulegt sé að segja til um heildarmagn fyrr en búið er að tæma skipið að fullu. Þó sé tjón af völdum olíunnar mun minna en stjórnendur fyrirtækisins þorðu að vona.

Norskir fjölmiðlar greindu frá því í gær að til stæði að gera breytingar á ströndinni til þess að reyna að koma í veg fyrir að óhöpp af þessu tagi gerist aftur. Þá verður sprengt grjót undir sjónum á nokkrum stöðum til að auka dýpið og breikka siglingaleiðina.

Forstjóri Eimskips, Gylfi Sigfússon, bað Norðmenn afsökunar á strandi skipsins á blaðamannafundi í Noregi í gær. Skipstjóri Goðafoss misreiknaði siglingastefnu, sem varð til þess að skipið festist í firðinum. Skipstjórinn hefur siglt þennan fjörð í 25 ár.

Ekki verður hafist handa við að meta fjárhagslegt tjón af völdum strandsins fyrr en búið er að tæma það, flytja og bjarga því sem bjargað verður. Það getur tekið nokkra mánuði. sunna@frettabladid.is




Fleiri fréttir

Sjá meira


×