Lífið

Stríðið um Mjallhvíti

Charlize Theron er ógnvekjandi í hlutverki sínu sem vonda stjúpan og Kristen Stewart ætlar að láta hart mæta hörðu sem Mjallhvít í Snow White and the Huntsman. Það svífur hins vegar ögn meiri gleði og litadýrð yfir Juliu Roberts í hlutverki vondu stjúpunnar og Lily Collins í hlutverki Mjallhvítar í kvikmyndinni Mirror Mirror. Báðar myndirnar verða frumsýndar á þessu ári.
Charlize Theron er ógnvekjandi í hlutverki sínu sem vonda stjúpan og Kristen Stewart ætlar að láta hart mæta hörðu sem Mjallhvít í Snow White and the Huntsman. Það svífur hins vegar ögn meiri gleði og litadýrð yfir Juliu Roberts í hlutverki vondu stjúpunnar og Lily Collins í hlutverki Mjallhvítar í kvikmyndinni Mirror Mirror. Báðar myndirnar verða frumsýndar á þessu ári.
Mjallhvítar-stríð/Charlize Theron/Julia Roberts/Kristen Stewart/Lily Collins
Sagan um Mjallhvíti, prinsessuna fögru sem hrakin var á brott af vondu stjúpunni og fann skjól hjá dvergunum sjö, er flestum kunn. Á næsta ári verða tvær fokdýrar kvikmyndir frumsýndar þar sem snúið er út úr ævintýri Grimm-bræðra að hætti Hollywood.

Á einni viku voru frumsýndar stiklur úr tveimur myndum á netinu – þar eru flestar stiklur frumsýndar í dag – sem eiga það sameiginlegt að vera innblásnar af sama ævintýrinu, Mjallhvíti.

Universal-kvikmyndaverið varð fyrra til og setti í dreifingu stiklu úr Snow White and the Huntsman með Charlize Theron í hlutverki vondu stjúpunnar og Twilight-stjörnunni Kristen Stewart sem saklausu meyjarprinsessunni Mjallhvíti. Fallegar myndir Walt Disney, sem flestir tengja sterkt við ævintýrið, eru víðsfjarri í þessari dökku, nánast gotnesku kvikmynd (Stewart klæðist til að mynda ekki prinsessukjólum á kynningarmyndum heldur skartar bæði brynju og sverði) og andinn sem svífur yfir vötnum minnir meira á Leðurblökumanninn en hið sígilda ævintýri (ef einhver var að vonast eftir syngjandi dvergum getur hann gleymt því en spegillinn og veiðimaðurinn eru á sínum stað).

Ekki voru hins vegar liðnir margir dagar áður en Relativity Media frumsýndi stiklu úr Mirror Mirror. Þar er Julia Roberts vonda stjúpan og Lily Collins Mjallhvít. Og þar eru sposkir dvergar sem aðstoða Mjallhvíti við að endurheimta konungsríkið eftir að stjúpan varpar henni á dyr. Ólíkt Theron, sem er ill inn að beini í sinni mynd, er Roberts bæði kaldhæðin og hnyttin og Collins, ólíkt Stewart sem leyfir sér varla eitt stakt bros, er brosmild, sæt og fín í fallegum og tilkomumiklum kjólum eftir japönsku goðsögnina Eiko Ishioka. Myndin er mun bjartari yfirlitum en Snow White and the Huntsman þótt sagan eigi lítið skylt við sjálft ævintýrið (inn í hana blandast treggáfaður prins og ráðagóður aðstoðarmaður).

Los Angeles Times fjallar um þetta meinta stríð. Í grein blaðsins kemur fram að á yfirborðinu líti allt út fyrir að það eigi eftir að loga stafnanna á milli í styrjöldinni um áhorfendur. Til að mynda andi köldu milli fyrirtækjanna tveggja, en Relativity fjármagnaði stóran hluta af kvikmyndum Universal en ákvað fyrir skömmu að dreifa sínum myndum sjálft. Báðum myndunum er leikstýrt af tiltölulega óþekktum leikstjórum – Snow White gerir Rupert Sanders og Tarsem Singh leikstýrir Mirror – og reyndar Óskarsverðlaunaleikkonur eru í hlutverki vondu stjúpunnar. Þá eru ungstirni á uppleið í hlutverkum Mjallhvítar.

En þar með er samanburðinum lokið. Myndirnar þykja gerólíkar og eru þar að auki frumsýndar á hvor á sínum tímanum, Mirror verður frumsýnd í mars en Snow White í júní. Blaðamaður Los Angeles Times telur að Snow White eigi eftir að verða í miklu meiri samkeppni við kvikmyndir á borð við The Dark Knight Rises á meðan Mirror verði á slóðum léttvægra hasarmynda með grínívafi og muni berjast um hylli aðdáenda slíkra kvikmynda.

Í grein Los Angeles Times segir að það hljóti að teljast góð tíðindi að tvær fokdýrar kvikmyndir með tveimur konum í aðalhlutverkunum skuli vera frumsýndar á sama árinu. Og þetta sé langt frá því að vera í fyrsta skipti sem svona hlutir gerist, Armageddon og Deep Impact höfðu til að mynda lítil áhrif á hvor aðra. Hins vegar er hættan alltaf sú að Mirror Mirror verði þvílíkur smellur að Snow White hljóti sömu örlög og Hróa hattar-mynd Patricks Bergin sem var frumsýnd sama ár og Prince of Thieves með Kevin Costner sló öll met.freyrgigja@frettabladid.is

Mjallhvítar-stríð/Charlize Theron/Julia Roberts/Kristen Stewart/Lily Collins
Mjallhvítar-stríð/Charlize Theron/Julia Roberts/Kristen Stewart/Lily Collins





Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.