Skoðun

Endurskipulagning heilbrigðisþjónustunnar

Elsa B. Friðfinnsdóttir skrifar
Undanfarnar vikur hefur mikið verð rætt og ritað um læknaskort á Íslandi, afleiðingar hans og hvernig bregðast skuli við. Fram hefur komið að um 165 lækna vanti til starfa hér á landi að mati formanns Læknafélags Íslands. Læknum á aldrinum 35-39 ára hefur fækkað úr 120 í 50 á síðustu þremur árum. Um þriðjungur íslenskra lækna starfar erlendis, en vert er að geta þess að kostnaður við menntun hvers læknanema í Háskóla Íslands er yfir 10 milljónir króna. Erfiðlega hefur gengið að manna stöður lækna, sérstaklega í heilsugæslunni, á Sjúkrahúsinu á Akureyri og öðrum heilbrigðisstofnunum á landsbyggðinni.

Hvað er til ráða?Til að bregðast við læknaskortinum hefur helst verið bent á að fjölga læknanemum, hækka laun lækna og bæta starfsaðstöðu þeirra. Sigurður Guðmundsson, forseti heilbrigðisvísindasviðs Háskóla Íslands og fyrrverandi landlæknir, hvetur þó til þess í nýlegu viðtali á visir.is að menn hugsi sig „tvisvar um áður en við förum að mennta fleiri lækna til útflutnings." Sigurður telur að þess í stað þurfi hugsanlega að breyta uppbyggingu heilbrigðisþjónustunnar frá grunni. Hann segir orðrétt:

„Að tefla meira fram öðrum stéttum en læknum í ýmiss konar verk sem núna eru fyrst og fremst á höndum lækna, til dæmis hjúkrunarfræðinga og fleiri, þetta er alþekkt í öðrum löndum, hjúkrunarfræðingar eru mun öflugri til dæmis í heilsugæslu heldur en hér og ýmis störf inni á sjúkrahúsunum eru í höndum hjúkrunarfræðinga sem er síður hér, þetta er eitthvað sem þarf að hugsa og beinir spjótunum ekkert síður að okkur sem sjáum um menntun heilbrigðisstétta."

Þetta eru sannarlega orð í tíma töluð hjá yfirmanni menntunarmála heilbrigðisstétta hjá HÍ.

Að nýta þekkingu hjúkrunarfræðingaGrundvöllur þess að fagstéttir taki að sér ný og ábyrgðarmeiri verkefni innan heilbrigðisþjónustunnar er aukin menntun. Menntun hjúkrunarfræðinga hefur fleygt fram á síðustu áratugum. Síðustu 25 árin hefur hjúkrunarfræði eingöngu verið kennd í háskólum hér á landi, sem er einstakt í heiminum, en námið tekur fjögur ár. Yfir helmingur hjúkrunarfræðinga hefur auk þess formlega viðbótarmenntun, flestir tveggja ára meistaranám. Stór hluti hjúkrunarfræðinga hefur því lokið sex ára háskólanámi. Rúmlega 60 hjúkrunarfræðingar hafa sérfræðileyfi í sérgreinum hjúkrunar, skv. reglugerð um sérfræðileyfi í hjúkrun frá 2003. Þekking og færni hjúkrunarfræðinga er því mikil og mikilvægt að hún sé nýtt til hagsbóta fyrir skjólstæðingana.

Sigurður nefnir sérstaklega þá staðreynd að víðast annars staðar, þar sem grunnnám hjúkrunarfræðinga er þó ekki jafnlangt og hér á landi, bera hjúkrunarfræðingar ábyrgð á mun viðameiri verkefnum í heilsugæslunni en hér tíðkast. Hjúkrunarfræðingar hafa víða sjálfstæða móttöku, sjá um slysamóttöku þegar um minni háttar slys er að ræða, sjá um eftirlit með einstaklingum með langvinna sjúkdóma og hafa sums staðar leyfi til endurnýjunar lyfseðla og jafnvel leyfi til að ávísa lyfjum svo sem getnaðarvörnum. Það er kominn tími til að stjórnvöld brjóti upp þá úreltu hugmynd að heilsugæsla sé aðeins læknamóttaka. Í heilsugæslunni starfar, auk lækna, fjöldi fagstétta sem öllum er hagur að að fái aukin verkefni og sjálfstæði til starfa.

Hjúkrunarfræðingar geta einnig tekið að sér aukin verkefni á sjúkrahúsum. Nú eru tæplega 30 klínískir sérfræðingar í hjúkrun starfandi á Landspítala. Þó ekki hafi verið gerð formleg rannsókn á árangri starfa þeirra má þó fullyrða að hann sé mikill, bæði faglega og fjárhagslega. Sem dæmi má nefna dagþjónustu fyrir sjúklinga með lungnasjúkdóma sem sérfræðingur í hjúkrun stýrir. Innlögnum vegna þessara sjúkdóma hefur fækkað um 70% frá því að dagþjónustan tók til starfa. Það efast líklega enginn um aukin lífsgæði einstaklinganna við þessar breytingar en þær eru einnig mjög fjárhagslega hagkvæmar því dýrasta úrræði heilbrigðisþjónustunnar eru innlagnir á hátæknisjúkrahús. Stefna stjórnenda Landspítalans er að auka dag- og göngudeildarþjónustu. Hjúkrunarfræðingar geta og ættu þar að vera í lykilhlutverki.

Breytinga er þörfEndurskoðun skipulags heilbrigðisþjónustunnar kemur alla jafna til vegna aukinnar tækni, betri menntunar heilbrigðisstarfsfólks eða breytinga í fjármögnun og rekstri. Hér á landi hefur hið síðasttalda verið ráðandi, þ.e. skipulagi hefur verið breytt til að minnka kostnað. Nú er hins vegar lag að breyta skipulagi með hliðsjón af aukinni menntun hjúkrunarfræðinga. Stjórnvöld og stjórnendur heilbrigðisstofnana þurfa að skoða hver gerir hvað í heilbrigðisþjónustunni, til að tryggja að sá heilbrigðisstarfsmaður sem hefur þá menntun sem þarf til að fást við ákveðið verkefni, sinni því verkefni. Það skilar bestum árangri og er fjárhagslega hagkvæmast.




Skoðun

Sjá meira


×