Þúsundir mótmælenda flykktust inn á aðaltorgið í höfuðborg Barein í gær, á þriðja degi mótmæla sem kostað höfðu tvo menn lífið. Lögreglan hafði tekið harkalega á mótmælendum en í gær brá svo við að Hamid bin Isa al Khalifa, konungur landsins, ávarpaði þjóðina í sjónvarpi, lofaði því að dauðsföllin tvö yrðu rannsökuð og hét því að hraða umbótum í landinu, meðal annars að losa um hömlur á notkun internets og fjölmiðla.
Her og lögregla virtust halda aftur af sér í gær, þegar mannfjöldinn streymdi inn á Perlutorgið í höfuðborginni Manama.
Mótmælendurnir virðast flestir vera sjía-múslimar, öfugt við konungsfjölskylduna, sem er súnní-trúar. Mótmælendurnir krefjast þess meðal annars að súnní-múslimar, sem eru 70 prósent landsmanna, njóti ekki forréttinda og krefja konungsfjölskylduna um að gefa öðrum kost á að taka þátt í ákvörðunum um landshagi.
Spenna milli súnní-múslima og sjía hefur lengi verið mikil í landinu. Á síðasta ári brutust út nokkurra vikna átök eftir að andóf sjía-múslima var barið niður af hörku.
Ekkert lát er á mótmælaólgu víða í Norður-Afríku og Mið-Austurlöndum í kjölfar mótmælanna í Egyptalandi og Túnis, sem náðu þeim árangri að forsetar þessara tveggja landa hröktust frá völdum.- gb