Skoðun

Enn um forvarnir

Sigríður Hjaltested skrifar
Ég kom full af eldmóði og krafti af síðustu ráðstefnu samtakanna Blátt áfram. Það er ekki annað hægt en að dást að því fólki sem lagt hefur hönd á plóginn í baráttunni gegn kynferðisbrotum gegn börnum og vinnu við forvarnir. Forvarnir í hvaða mynd sem er teljast „arðbær fjárfesting“. Afleiðingar þess að vanrækja þessa vinnu koma annars aftan að okkur fyrr en síðar.

Blátt áfram hefur einbeitt sér að grasrótinni og leggur áherslu á fræðslu frá unga aldri. Við hjá lögreglunni höfum svo sannarlega orðið vör við árangur þessa. Æ oftar fáum við mál þar sem börn segja frá kynferðislegu ofbeldi gegn þeim en hvati þess að þau tjá sig hefur verið brúðuleikhúsið, fræðsluerindi í skólanum eða upplýsingar á netinu.

Á ráðstefnunni var kynnt rannsókn Bryndísar Bjarkar Ásgeirsdóttur sálfræðings um kynferðisbrot gegn unglingum. Niðurstöður voru meðal annars að 35,7 prósent stúlkna sögðu sig hafa orðið fyrir kynferðisbrotum undir 18 ára aldri en 17,8 prósent pilta. Þá eru unglingarnir líklegri en yngri börn til þess að verða fyrir kynferðisofbeldi. Einnig kom fram að kynferðisofbeldi á milli unglinga færist í vöxt.

Það er ekki að ástæðulausu að við teljum nauðsynlegt að beina sjónum í auknum mæli að unglingunum enda feta þeir brautina á milli þess að vera barn og þess að vera fullorðinn einstaklingur. Í þessu sambandi skiptir að sjálfsögðu meginmáli að unglingarnir fái rétta fræðslu þaðan sem þeir geta treyst upplýsingunum. Samfélagið allt ber mikla ábyrgð í þessu sambandi.

Unglingarnir í dag eru því miður afar margir „vanbúnir“ til þess að setja sjálfum sér og öðrum mörk. Þessi hæfileiki virðist fara þverrandi með tilkomu samskiptasíðna netsins og öll mörk eru orðin óljósari. Einnig mótast sjálfsmyndin í auknum mæli af áliti annarra og viðurkenning skiptir æ meira máli. Það að þóknast öðrum til að fá viðurkenningu verður því að vana. Að sjálfsögðu þarf fullorðna fólkið líka að kunna að setja unglingunum mörk og jafnframt að vera vakandi fyrir óæskilegri hegðun sem þarf að stöðva. Það reynist mörgum foreldrum erfitt og þeir þarfnast hjálpar.

Það er von mín að á næstunni verði allir góðir kraftar sameinaðir til að tryggja unga fólkinu okkar heilbrigð unglingsár.




Skoðun

Sjá meira


×