Skoðun

Er þjóðsöngurinn líka óæskilegur?

Árni Gunnarsson skrifar

Mannréttindaráð Reykjavíkurborgar vill koma í veg fyrir, að prestar þjóðkirkjunnar heimsæki grunnskóla borgarinnar, og ræði þar kristin gildi við nemendur. Ástæðan: Mismunun í kynningu á trúarbrögðum. Á Íslandi eru nú skráð 33 trúfélög. Kynningin gæti orðið flókin. Ekki veit ég hvort hugmyndin er sótt til Siðmenntar, sem er félag siðrænna húmanista, eða til félagsins Vantrúar, sem í eru 80-90 yfirlýstir trúleysingjar. Hvergi get ég fundið fjölda félaga í Siðmennt, sem vissulega er marktækt félag og málsvari manngildisstefnu.

Fyrir nokkru sá ég svo frétt í blaði, þar sem andstæðingur þjóðkirkjunnar krafðist þess, að sunnudagsmessur í RÚV yrðu felldar niður. Til að fullnægja kröfunni um að prestar þjóðkirkjunnar hafi ekki óæskileg áhrif á ungt fólk, væri rökrétt framhald að fella niður barnamessur, jólamessur, áramótamessur, páskamessur, sjómannamessur et cetera. Og svo er Guðs að nokkru getið í þjóðsögnum. Kann það ekki að valda einhverri mismunun?

Í stjórnarskrá Íslands VI. Kafla, 62. grein segir: „Hin evangelíska lúterska kirkja skal vera þjóðkirkja á Íslandi." Í þeim söfnuði eru nú 251 þúsund einstaklingar. Í Fríkirkjusöfnuðunum í Reykjavík og Hafnarfirði eru 13.573 og í Kaþólska söfnuðinum eru 9.625. Í Siðmennt og Vantrú eru nokkur hundruð félagar.

Ég er sammála því, að í grunnskólum og öðrum skólum landsins, fari fram kynning og fræðsla um helstu trúarbrögð heims. En mér er ómögulegt, að koma auga á hættuna, sem fylgir því, að prestar eða aðrir starfsmenn hinnar íslensku þjóðkirkju, fræði skólabörn um kristna trú.

Ekki minnist ég slæmra áhrifa af heimsóknum presta, hafi þær verið tíðkaðar í mínum skólum fyrir rúmum 60 árum. Ég fór jafnvel sjálfviljugur í KFUM og Vatnaskóg og tel mig jafnvel hafa orðið eitthvað skárri manneskja af þeirri „innrætingu", sem þar fór fram.

En kannski er ég að misskilja þetta allt. Í barnaskap mínum hef ég alltaf talið, að Jesús Kristur hafi verið humanisti.

Vegna þess arna vil ég láta það koma fram, að það er annarskonar innræting, sem vert væri fyrir humanista að hafa áhyggjur af. Það er innræting ofbeldis í kvikmyndum, sjónvarpi og tölvuleikjum, þar sem blóð flæðir, hausar velta og sigurvegarinn er sá, er flesta drepur. Ofbeldi, sem vex hröðum skrefum í okkar góða landi, á ekkert skylt við siðrænan humanisma. Ofbeldið ógnar manngildinu og ég legg eindregið til, að Mannréttindaráð Reykjavíkurborgar beini baráttu sinni að þeim ófögnuði. Það eru mannréttindi að geta gengið öruggur um borgina sína.






Skoðun

Skoðun

76 dagar

Erlingur Sigvaldason skrifar

Sjá meira


×