Innlent

80 prósent einstæðra foreldrar eiga erfitt með að ná endum saman

Hugrún Halldórsdóttir skrifar
Einstæðir foreldrar hér á landi standa margir fjárhagslega illa en þrír af hverjum fjórum á erfitt með að ná endum saman samkvæmt nýrri Lífskjararannsókn Hagstofu Íslands 2011.

Samkvæmt henni standa íslensk heimili nú verr fjárhagslega miðað við síðustu ár.

10,2% heimila höfðu lent í vanskilum með húsnæðislán eða leigu undanfarna 12 mánuði samanborið við 5,8% árið 2007. Þá áttu 62.600 heimili eða 51,5% erfitt með að ná endum saman á þessu ári en heimilum í þessari stöðu hefur fjölgað um tæpan fjórðung á síðustu fjórum árum. Einstæðir foreldar koma langverst út í skýrslunni, en tæplega 80% eiga erfitt með að ná endum saman, eða sjöþúsund og sexhundruð heimili, sem er talsvert hærra hlutfall þegar litið er til íslenskra heimila í heild.

Þegar litið er til óvæntra útgjalda má sjá að 40% íslenskra heimila getur ekki mætt óvæntri 160 þúsund króna greiðslu með þeim leiðum sem þau venjulega nýta, en 10% fleiri heimili eru í þessum hópi miðað við árið 2007. Einstæðir foreldrar eru verr í stakk búnir til að mæta óvæntum útgjöldum en 67,5% segjast ekki geta mætt þeim.

Rannsóknin, sem náði til rúmlega fjögurþúsund heimila, er liður í samræmdri lífskjararannsókn Evrópusambandsins og var hún framkvæmd í mars til maí á þessu ári.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×